Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Hættur í Samfylkingarnefnd vegna ósættis um alkahólisma

Mynd með færslu
 Mynd: Vimeo
Birgir Dýrfjörð hefur sagt sig úr uppstillingarnefnd Samfylkingarinnar í Reykjavík. Í tilkynningu segir hann ástæðuna vera „ódæðisverk gegn óvirkum alkahólistum” og vísar þar til ósættis sem hefur blossað upp vegna umræðna um Ágúst Ólaf Ágústsson, þingmann flokksins. Uppstillingarnefndin setur saman framboðslista flokksins í Reykjavík fyrir komandi kosningar. Birgir er sömuleiðis í flokksstjórn Samfylkingarinnar.

Vill ekki rjúfa þagnarheit

Birgir segir í tilkynningu sem send var fjölmiðlum nú síðdegis að nefndin hafi í upphafi undirritað þagnarheit um hvernig verði rætt um það fólk sem komi til álita sem frambjóðendur flokksins. „Slíkt heit er forsenda þess að hver og einn geti sagt hug sinn um þau, sem vildu vera í framboði,” segir hann. „Þetta þagnarheit vil ég ekki rjúfa. Mér er því aðeins fært að ræða mínar persónulegu ástæður fyrir brottför minni úr nefndinni.”

Ástæðan segir Birgir vera umræða um flokksmenn sem eigi við áfengisvandamál að stríða, alkahólista. Birgir segist sjálfur hafa reynt það á eigin skinni að drekka sig úr karakter og láta illa undir áhrifum, en nú hafi hann verið óvirkur alkahólisti í 40 ár. 

Í samtali við fréttastofu segist Birgir ekki vilja rjúfa trúnað við flokkinn, en er tilbúinn að staðfesta að hann sé að tala um Ágúst Ólaf Ágústsson, þingmann flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður. Því segir Birgir sig úr nefndinni og segist ekki geta annað. 

Óttast ódæðisverk

„En það breytir ekki því að ég tek mjög nærri mér þegar væn manneskja hefur leitað sér lækningar, og sannanlega náð góðum bata, og bætt ráð sitt, er dæmd vanhæf og brottrekin með þeim rökum, að hún sé ekki traustsins verð vegna fyrri hegðunar í ölæði,” segir Birgir. „Það finnst mér skelfilegt ódæðisverk gegn óvirkum alkohólistum. Ég óttast að Samfylkingin fremji nú það ódæðisverk gegn óvirkum alkohólistum.”

„Einnig er því til að svara, að þrátt fyrir að í uppstillingarnefnd sé heiðarlegt vel meinandi og gott fólk, þá finn ég mjög fyrir nöprum næðingi heiftar, sem ég ræð ekki við að stöðva. Ekki frekar en troða strigapoka upp í norðangáttina.”

Náði ekki í topp fimm

Ágúst Ólafur náði ekki í efstu fimm sætin í skoðanakönnun sem haldin var innan flokksins um val í sætin fyrir komandi kosningar. Skoðanakönnunin átti að fara leynt, en einhverjum niðurstöðum var þó lekið í fjölmiðla. Töluverð ólga er innan flokksins varðandi stöðu Ágústs Ólafs, en hann fór í leyfi frá þingstörfum 2019 til að fara í meðferð hjá SÁÁ eftir að hann varð uppvís að því að beita konu kynferðislegri áreitni. Hann var áminntur af trúnaðarnefnd Samfylkingarinnar. 

Ágúst Ólafur vildi ekki tjá sig um málið við fréttastofu RÚV.