Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Grasrótinni leyft að vaxa og dafna

Mynd: Aðsend / Aðsend

Grasrótinni leyft að vaxa og dafna

18.01.2021 - 13:55

Höfundar

Hljómsveitin Pínu Litlar Peysur gaf nýverið út sína fyrstu smáskífu. Í einu laganna er sungið um að pynta Margaret Thatcher og pissa á gröf hennar. Liðsmenn sveitarinnar segja Thatcher vera holdgerving ákveðins kerfis sem sé enn við lýði.

Allt það nýjasta og það sem er mest spennandi innan íslensku tónlistarsenunnar hefur fengið sinn sess í útvarpsþættinum Ólátagarði. Í þættinum er hlúð að grasrót íslensku tónlistarsenunnar og henni leyft að vaxa og dafna. 

Umsjónarfólk Ólátagarðs er Andrés Þór Þorvarðarson, Bjarni Daníel Þórðarson, Katrín Helga Ólafsdóttir, Snæbjörn Helgi Arnarson Jack og Örlygur Steinar Arnalds. Þau hafa öll starfað við tónlist með einum eða öðrum hætti að undanförnu og má þarna nefna hljómsveitirnar Skoffín, Korter í flog, Milkhouse og K.óla auk útgáfufyrirtæksins Póstdreifingu. 

Þau segja grasrótina vera fjölbreytta en fyrst og fremst fallega. Þau ætli að gera sitt besta til að hlúa að henni, vökva og gefa henni plássið sem hún á skilið. Jafnframt taka þau fram að í Ólátagarði gildi aðrar reglur. Þar sé allri sköpun fagnað og ekkert svigrúm sé fyrir hatur, kúgun og mismunum. 

Gestir í fyrsta þætti Ólátagarðs eru Helga Guðrún Þorbjörnsdóttir, Ísak Karel Viðarsson, Jón Múli og Oliver Devaney en saman skipa þau hljómsveitina Pínu Litlar Peysur sem var stofnuð í bílskúr í Fossvoginum síðla árs 2020. Þrátt fyrir að hafa aðeins verið starfandi í skamman tíma hefur sveitin þegar sent frá sér sína fyrstu smáskífu auk tónlistarmyndbands. Smáskífan PLP EP kom út á Þorláksmessu. 

Nafn sveitarinnar hefur vakið athygli en liðsmenn segja að þeim hafi einfaldlega þótt nafnið fyndið auk þess sem skammstöfunin PLP sé flott. Það hafi því verið ákveðin skellur þegar þeim var bent á það í ummælum á YouTube að „pínulitlar” sé eitt orð en ekki tvö. Enda er skammstöfunin PP ekki jafn flott. 

Á smáskífunni má finna lagið Maggie Thatcher en í textanum eru allskyns svívirðingar um þennan fyrrum forsætisráðherra Breta. Þar er meðal annars talað um að pynta hana með vatnsbrettaaðferðinni og að pissa á gröfina hennar. Þau segja Thatcher vera holdgerving ákveðins kerfis sem er við lýði í dag og sé því í raun og veru enn þá lifandi. 

Þátturinn Ólátagarður er á dagskrá öll mánudagskvöld kl. 23 á Rás 2.