Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ekki hægt að útiloka orsakatengsl í einu andlátinu

Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir
Í einu af þeim fimm andlátum fólks sem hafði nýlega verið bólusett við kórónuveirunni, er ekki hægt að útiloka orsakatengsl. Enginn hefur greinst með svokallað Brasilíuafbrigði veirunnar hér á landi. Fólki er ráðið frá utanlandsferðum nema brýna nauðsyn beri til. 

 

Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og embættis landlæknis í morgun. Ný sending af bóluefni kom til landsins í morgun og um 5.000 íbúar hjúkrunarheimila og heilbrigðisstarfsmenn fá seinni bólusetningu í vikunni og um 3.000 aldraðir fá þá fyrri. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á fundinum að 43 hefðu greinst með breska afbrigði veirunnar hér á landi. „En enginn hefur greinst hér á landamærunum með suðurafríska afbrigðið svokallaða eða afbrigði frá Brasilíu. Það er líka ánægjulegt að sjá að hlutfall jákvæðra sýna hjá þeim sem eru með einkenni er mjög lágt, 0,4% sem er merki um að við erum með mjög lítið samfélagslegt smit,“ sagði Þórólfur.

Á fundinum réð Þórólfur fólki frá því að fara til útlanda nema brýna nauðsyn bæri til. Mörg dæmi væru um að vottorð sem sýndu að fólk hefði fengið COVID-19 væru ekki tekin gild við landamæri og ljóst væri að mörg lönd væru að herða verulega á landamærum sínum.

Á fundinum fór Alma D. Möller landlæknir yfir athugun sem var gerð á vegum embættis landlæknis á dauðsföllum fólks sem hafði nýlega verið bólusett við kórónuveirunni. „Niðurstaða þeirra er að í fjórum þessara tilvika sé ekki eða mjög ólíklega um orsakatengsl að ræða en í einu tilviki var ekki hægt að útiloka tengsl með vissu þó líklega hefði andlátið fremur átt skýringar í undirliggjandi ástandi þess einstaklings. Það verður að hafa í huga að íbúar hjúkrunarheimila landsins eru upp til hópa hrumir einstaklingar með fjölda langvinnra sjúkdóma, fjölllyfjameðferð og færniskerðingu og að meðaltali andast um 18 einstaklingar úr þessum hópi á hverri viku.“ 

Alma sagði að samkvæmt upplýsingum frá lyfjastofnunum Evrópu og Norðurlöndunum hefðu einstök dauðsföll verið tilkynnt í kjölfar bólusetninga, en almennt væri talið að þau tengdust undirliggjandi sjúkdómum.