Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

„Ég vil að Akureyrarbær taki út allar unnar kjötvörur”

18.01.2021 - 21:50
Innlent · Akureyri · Heilsa · Norðurland · Skólamál · vegan
Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Hjúkrunarfræðingur og móðir á Akureyri segir bæinn fara gegn tilmælum landlæknis með því að bjóða börnum í leik- og grunnskólum upp á sykur, unnar kjötvörur og rautt kjöt í miklu magni. Hún sendi fræðsluráði bæjarins erindi, og fundað var um málið í dag.

Segir bæinn ekki fara eftir tilmælum landlæknis

Eyrún Gísladóttir, hjúkrunarfræðingur, starfar hjá grunnskólum Akureyrar. Hún á sjálf tveggja ára dóttur sem er á leikskóla í bænum. Hún bendir á að í ráðleggingum frá landlæknisembættinu segi að velja eigi næringarrík matvæli fram yfir unnar matvörur, takmarka mettaða fitu, sykur og salt. Hún segir þessi tilmæli algerlega virt að vettugi.

„Okkur foreldrum er kennt í byrjun í ungbarnaverndinni, það er farið yfir næringuna, hvað þau eigi að vera að fá og svo byrja börnin hjá dagforeldrum eða á leikskólum og þar er þetta allt einhvern veginn skotið niður,” segir Eyrún. 

Varð brugðið við að skoða matseðla í leik- og grunnskólum

Eftir að dóttir Eyrúnar fór til dagforeldra og svo á leikskóla fór Eyrún að láta sig þessi mál varða. „Ég og kærastinn minn förum að skoða þessa matseðla í leikskólunum og í grunnskólunum og okkur verður bara mjög brugðið að sjá hvað það er ótrúlega mikið af unnum kjötvörum og alls konar mat sem er ekki talinn vera æskilegur.”

„Þetta er okkar trú”

„Einstaklingur sem er múslimatrúar, hann má sleppa við svínakjöt í leik- og grunnskólum út af trú. Þetta er okkar trú. Þetta er mín trú að við eigum ekki að borða dýraafurðir, að við eigum ekki að neyta dýraafurða, að það sé betra fyrir okkar heilbrigði og umhverfið.”

Fræðsluráð skoðar málið

Eyrún sendi fræðslusviði Akureyrarbæjar erindi vegna málsins þar sem hún krafðist þess að matseðlar leik- og grunnskóla yrðu endurskoðaðir. Ráðið tók málið fyrir á fundi sínum í dag og verður ályktun þeirra gerð opinber á morgun. 

„Það sem ég myndi vilja breyta er að ég vil að Akureyrarbær taki út allar unnar kjötvörur og það strax. Svo myndi ég vilja að það yrði minnkað til muna rautt kjöt í leik- og grunnskólum, í staðinn kæmi þá inn meira af grænmetisfæði, fyrir alla.”