Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bretar, Brexit og BNA

18.01.2021 - 17:28
Mynd: EPA / EPA
Bretar eru gengnir úr Evrópusambandinu en hafa enn ekki mótað sér utanríkisstefnu í samræmi við það. Veigamikill liður þar er óhjákvæmilega samband ríkisstjórnar Borisar Johnsons við Bandaríkin. Og þar kemur til sögu þetta sérstaka samband sem Bretar telja sig eiga við Bandaríkin. Allt er þetta rifjað upp nú þegar Joe Biden tekur við embætti Bandaríkjaforseta á miðvikudag.

Trump Bretlands“

Það einkennir Donald Trump fráfarandi Bandaríkjaforseta að honum virðist fyrirmunað að hugsa um fólk, og reyndar flest annað, öðruvísi en út frá sinni eigin prívat og persónulegu skoðun. Í hans viðmiðun er hann sjálfur bestur og það var því ekkert smá hrós þegar hann talaði um Boris Johnson sem Trump Bretlands, almannarómur og meint sem hrós, sagði forsetinn.

Johnson: Trump ætti friðarverðlaunin skilið – ef...

Boris Johnson hafði ekki síður mikið álit á Trump. Sagði til dæmis að næði Trump að laga Norður-Kóreu og kjarnorkusamninginn við Íran væri hann ekki síðri kandídat fyrir friðarverðlaun Nóbels en Obama, sem fékk verðlaunin áður en hann gerði nokkurn skapaðan hlut, sagði Johnson.

Johnson hefur látið fleiri hrósyrði falla í garð Trumps en þetta um friðarverðlaunin hefur verið rifjað einna oftast upp undanfarið. Ekki síst af því Johnson lét hrósið falla 2018, þegar það var orðið nokkuð ljóst að það var ekki alltaf mikið að marka yfirlýstar fyrirætlanir Trumps.

Forsætisráðherra sér ekki eftir fyrri ummælum um friðarverðlaun til Trumps

Þegar forsætisráðherra sat fyrir svörum í breska  þinginu í síðustu viku spurði einn þingmaður Verkamannaflokksins forsætisráðherra hvort hann sæi eftir þessum orðum um Trump og friðarverðlaunin.

Forsætisráðherra kannaðist ekki við eftirsjá en greip til kunnuglegs bragðs þegar menn vilja ekki svara spurningum: hann nefndi ekki spurninguna, en sagði, eftir smá fum: ,,fyrirgefðu... en ég er hlynntur því að forsætisráðherra Breta sé í besta mögulega sambandi við forseta Bandaríkjanna.“ Bætti svo við að hann hefði átt afbragðs samtal nýlega við forsetaefnið Joe Biden.

Bretar og Bandaríkin: bandamenn í síðari heimstyrjöldinni

Afstaða Breta til Bandaríkjanna er mótuð af sögu sem í evrópsku samhengi er giska stutt, aðeins rúmar fjórar aldir. Afgerandi þátturinn er sambandið frá og með lokum síðari heimstyrjaldarinnar. Ýmsum Bretum þótti augljóst að þeir unnu stríðið sem bandamenn Bandaríkjanna. Og þegar fjarlæg lönd í breska heimsveldinu fóru að öðlast, eða taka sér, sjálfstæði hnykkti það á að stórveldistímar, já heimsveldistímar Breta, væru á enda. Ófarirnar við Súez-skurðinn 1956-57 undirstrikuðu þetta enn frekar.

Að vera stór í Evrópu frekar en lítill í heimshafinu

Uppúr þessu varð sú skoðun ofan á í sumum kreðsum Íhaldsflokksins að hagsmunum Breta væri best borgið að verða stórt land í litlu evrópsku tjörninni frekar en lítið land í heimshafinu. Í Evrópu gæti það enn frekar styrkt stöðu Breta að gegna sérstöku hlutverki fyrir stórveldið Bandaríkin, liður í sérstöku sambandi landanna tveggja.

Súez og Brexit

Ófarirnar við Súez spruttu meðal annars úr þeirri skoðun að saga og hagsmunir Breta næðu langt út fyrir Evrópu. Sú skoðun hefur aftur styrkst undanfarin ár í Íhaldsflokknum. Bergmálar að vissu leyti í hugmyndum Brexit-sinna eins og núverandi forsætisráðherra, til dæmis í orðum hans um að taka aftur stjórnina.

Sagan ómar í ,,að taka stjórnina aftur“

Fáir hamra jafn hraustlega á því og forsætisráðherra að taka aftur stjórnina í kjölfar Brexit, ekki bara taka stjórnina. Aftur, eins og einu sinni var, fyrir 1973 þegar Bretar gengu í Evrópusamvinnuna. En, nú er heimurinn er annar en þá, líka staða og styrkur Bandaríkjanna.

Biden-vandi Johnsons er pólitískur

Persónulegt samband þjóðarleiðtoga er vissulega mikilvægt en sjaldnast afgerandi. Vandinn fyrir Boris Johnson forsætisráðherra í sambandinu við Bandaríkin nú er fyrst og fremst pólitískur, ekki persónulegur. Joe Biden, fæddur 1942, er holdgervingur  þeirrar skoðunar að það þjóni bandarískum hagsmunum að vinna með sameinaðri og sterkri Evrópu. Nú þegar fyrra hlutverk Breta sem brú milli ESB og Bandaríkjanna er dottið upp fyrir þarf breska stjórnin að hugsa hvað nú. Og virðist komin merkilega stutt í þeim þönkum, svo séð verði.

Pragmatistinn Biden

Biden er pragmatisti, sem reynir almennt að gera sem best úr hverri stöðu út frá sínum skilningi á hagsmuni Bandaríkjanna. Bretar stýra leiðtogafundi G7 ríkjanna í júní og loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í nóvember. Á báðum þessum samkomum mun hin nýja stjórn Bidens án efa vilja láta til sín taka og henni því í mun gott samband við gestgjafana bresku.

Sérstaka sambandið ólíkt fyrir Bandaríkin og Breta

Sérstaka sambandið, sem Bretar klifa stöðugt á um samband sitt við Bandaríkin, er meira breskt en bandarískt hugtak. Bandaríkin eiga mörg sérstök sambönd, Bretar aðeins eitt.