Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ástandið í Washington furðulegt og ógnvekjandi

18.01.2021 - 22:39
Mynd: Ragnar Santos / RUV
Dagurinn í dag ætti að vera hátíð í Bandaríkjunum, minningardagur um mannréttindaleiðtogann Martin Luther King. En það fer lítið fyrir gleðinni vegna ofbeldisógnarinnar sem vofir yfir valdaskiptunum í Washington. Disouza fjölskyldan, sem rætt var við í tíufréttum kvöldsins, segir bæði furðulegt og ógnvekjandi að ganga um götur borgarinnar þar sem þúsundir þjóðvarðliða standa vaktina.

Nokkrir tugir komu saman á Black Lives Matter torginu í Washington í kvöld en búist er við mun fleirum þar á miðvikudag þegar Joe Biden tekur við forsetaembættinu af Donald Trump. Melania Trump, eiginkona hans, sendi frá sér lokakveðju í kvöld og sagði að ofbeldi gæti aldrei verið svarið við neinu og sagði það mikinn heiður að hafa verið forsetafrú síðastliðin fjögur ár. Hvorki Melania né Trump verða viðstödd innsetningarathöfn Bidens á miðvikudaginn en Mike Pence verður líklega þar í þeirra stað. Pence varði utanríkisstefnu Trump-stjórnarinnar í sinni síðustu ræðu sem varaforseti í gærkvöld. Hann sagðist stoltur af því að þetta væri fyrsta ríkisstjórnin í marga áratugi sem ekki sendi Bandaríkin í nýtt stríð. 

Ingólfur Bjarni Sigfússon og Ragnar Santos eru í Washington og ræddu við íbúa borgarinnar fyrr í kvöld. Þeir sögðu erfitt að lýsa stemningunni í borginni en hluti hennar er í hálfgerðri herkví. Josefine, sem hefur búið í Washington í 40 ár, sagðist ekki eiga nein orð til að lýsa ástandinu og óttaðist hið versta. „Því miður óttast ég að þetta eigi eftir að versna meira. Mér þykir leitt að segja það en ég held að það fari versnandi,“ sagði Josefine. 

 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV