Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

100 þúsund færri bílar um Vaðlaheiðargöng

18.01.2021 - 21:34
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Um eitthundrað þúsund færri bílar keyrðu um Vaðlaheiðargöng á nýliðnu ári en árið tvöþúsund og nítján. Áætlað er að tekjur dragist saman um tuttugu prósent milli ára.

Heildarumferðin um Vaðlaheiðargöng árið 2020 var 414 þúsund ökutæki. Þetta eru um 100 þúsund færri bílar en fóru um göngin árið 2019 og umferðin því minnkað um tæp 20% milli ára.

Covid-áhrif fyrst og fremst

„Þetta eru náttúrulega fyrst og fremst erlendir ferðamenn sem hafa ekki komið. Það eru náttúrulega þessi Covid áhrif,“ segir Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga hf. 

Eigendur flutningabíla noti göngin

Á síðasta ári fóru 1135 bílar að meðaltali í gegnum Vaðlaheiðargöng á sólarhring. Þar er fólksbílaumferðin yfirgnæfandi, en 96 prósent þessara bíla voru fólksbílar. Eigendur rútu- og flutningafyrirtækja hafa kvartað undan háu veggjaldi í göngunum og dæmi er um fyrirtæki sem enn keyra um Víkurskarð frekar en að fara göngin. „Við viljum meina að það séu allir að nota göngin, allir flutningabílar,“ segir Valgeir. „Þetta voru kannski rútufyrirtækin sem helst höfðu hátt. En við höfum svosem ekkert heyrt neitt meira og það stendur ekkert til að lækka neitt verðið.“

Víkurskarð gefur eftir

Þegar umferð um Vaðlaheiðargöng árið 2020 er borin saman við fjölda bíla um Víkurskarð sést að hlutfallslega fleiri óku um göngin en árið 2019. Af heildarumferð milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals fóru 80% vegfarenda um Vaðlaheiðargöng á nýliðnu ári, samanborið við 75% árið 2019. „Þetta er svona með öllum jarðgöngum og samgöngubótum. Það þarf tíma til að átta sig á því,“ segir Valgeir.

Tekjusamdráttur í sama hlutfalli og umferðin

Fjárhagslegt uppgjör Vaðlaheiðarganga fyrir síðasta ár liggur ekki fyrir. Í átta mánaða uppgjöri var tekjusamdrátturinn 57 milljónir króna samanborið við 2019. Valgeir telur að niðurstaðan eftir árið verði í sama hlutfalli og samdrátturinn í umferðinni. „Þetta verða eitthvað 20 prósent væntanlega, lægri tekjur. Sem náttúrulega segir sig sjálft, minni umferð, minni tekjur.“