Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

VG stærsti áfanginn og gott að ákveða sjálfur að hætta

Mynd: RÚV / RÚV
„Það hlaut að koma að þessu einhvern tímann,” sagði Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, um ákvörðun sína að hætta þingstörfum eftir kjörtímabilið. Hann hefur setið á Alþingi síðan 1983 og segir hann stofnun Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs stærsta kaflann í hans stjórnmálasögu. Ríkisstjórnin, sem hann sat í, hefði átt hlúa betur að barnafjölskyldum eftir efnahagshrunið og segir Steingrímur afar mikilvægt að standa vörð um þau sem ala upp komandi kynslóðir í landinu.

Miklu skemmtilegra að hætta sjálfur

Steingrímur fyrst sæti á Alþingi fyrir tæpum 40 árum og hefur lengsta starfsaldur allra sitjandi þingmanna. Hann segir þetta góðan tíma til að segja það gott af þingstörfum, bæði fyrir hann sjálfan og fjölskylduna, sem og Vinstrihreyfinguna grænt framboð. Steingrímur leit yfir farinn veg með Fanneyju Birnu Jónsdóttur í Silfrinu í morgun. 

Hann segir aðstæður nú hafa gefið honum tækifæri að taka ákvörðunina sjálfur um að hætta og það hafi hann alltaf stefnt á að gera. „Það er miklu skemmtilegra heldur en að aðrir taki svona ákvörðun fyrir mann.”

Ætlaði að prófa nokkur ár og halda svo áfram með lífið

Hann er kallaður til að leiða lista fyrir komandi kosningar árið 1983 og ræddi það við konu sína um að það gæti reynst áhugavert að prófa þingmennsku í nokkur ár og halda svo bara áfram með sitt líf og sitt nám. En það æxlaðist aðeins öðruvísi. 

„Maður fór svo bara á kaf í stjórnmálin og leit eiginlega ekki um öxl.”

Ævintýralegir tímar í kring um stofnun VG

Hann segir fyrstu ríkisstjórnarþáttökuna og þjóðarsáttina vissulega standa upp úr þegar hann lítur um öxl, en aðild hans í stofnun VG segir hann stærsta kaflann í stjórmálasögu sinni og þeir ævintýralegu tímar í kring um það.

„Sumir stjórnmálamenn fá að upplifa einu sinni á ferlinum, flestir aldrei, að taka þátt í því með hugsjónafólki að leggja grunn að nýrri stjórnmálahreyfingu og að það takist vel og hún festi sig í sessi.” 

Eftir afleiðingar efnhagshrunsins, sem stóðu yfir í mörg ár, hélt Steingrímur að hann væri búinn að fá sinn skammt af slíku. „En svo kemur þessi heimsfaraldur núna og markar svolítið síðustu árin.” 

Hlúðu ekki nægilega vel að barnafjölskyldum

Fanney spyr hvað hefði viljað gera öðruvísi, hvort það væri eitthvað kusk í baksýnisspeglinum. Hann víkur þá aftur að hruninu og segir að stjórnvöldum hafi yfirsést að búa nægilega vel að barnafjölskyldum. 

„Við áttuðum okkur of seint, 2012 eða 2013, að við hefðum átt að gera betur við barnafjölskyldur. Við horfðum svo mikið á húsnæðisvandann en okkur yfirsást aðeins að hlúa betur að fjölskyldum, jafnvel þeim sem héldu vinnunni og húsnæði. Það þarf að hlúa betur að þeim sem eru að ala upp komandi kynslóðir í landinu.”  

Ætlar ekki að skipta sér af listanum í NA

Þakklæti fyrir traust og stuðning er honum efst í huga. Hann segist ekki ætla að skipta sér af uppröðun flokksins á listann í Norðausturkjördæmi, sem hann hefur leitt fram til þessa. „Nú fara félagar mínir fyrir norðan að í það verkefni að velja sér frambjóðendur á listann. Það væri ekki við hæfi og engum til góðs að velja sér eftirmann.” 

Viðtal Fanneyjar Birnu við Steingrím má nálgast í spilaranum hér að ofan.

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
dagskrárgerðarmaður