Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Upptökustjórinn Phil Spector látinn

epa000283922 Record producer Phil Spector reads a statement to the press outside the Los Angeles County Criminal Courts Building in Los Angeles Monday, 27 September 2004. The 64-year-old Spector is accused of fatally shooting actress Lana Clarkson at his hilltop mansion last year. He pleaded innocent to one count of murder.  EPA/BRENDAN MCDERMID
 Mynd: EPA

Upptökustjórinn Phil Spector látinn

17.01.2021 - 17:47

Höfundar

Bandaríski upptökustjórinn Phil Spector lést í gær, 81 árs að aldri. Spector lést í fangelsi í Kaliforníu í Bandaríkjunum þar sem hann afplánaði dóm til 19 ára eða lífstíða fyrir morð. Hann skaut leikkonuna Lönu Clarkson til bana á heimili sínu árið 2003.

Spector er þekktur fyrir „hljóðvegginn" sinn eða Wall Of Sound og stjórnaði upptökum á hljómplötum margra frægra listamanna. Má þar nefna Let It Be plötu Bítlanna, sólóplötur með John Lennon og George Harrison, einnig plötur Leonards Cohens og Ramones og eru þá bara fáeinir nefndir.

Bandaríski miðillinn TMZ segist hafa heimildir fyrir því að Spector hafi dáið úr COVID-19. Spector fæddist 26. desember 1939 í Bronx í New York. Nítján ára stofnaði hann hljómsveitina The Teddy Bears ásamt skólabræðrum sínum og samdi lag þeirra To Know Him is to Love Him. Það komst á topp bandaríska smáskífulistans í september 1958.

Tveimur árum síðar varð Spector yngsti plötuútgefandi Bandaríkjanna þegar hann stofnsetti Phillies Records. Sex árum síðar tók hann sér þriggja ára hlé frá hljómplötuútgáfu en þegar hann sneri aftur tók hann til óspilltra málanna og var um árabil einhver afkastamesti og vinsælasti upptökustjóri veraldar.

Árið 1989 var Spector tekinn inn í Frægðarhöll rokksins og 2004 lenti hann í 63. sæti yfir mestu listamenn allra tíma á lista tímaritsins Rolling Stone.

Tengdar fréttir

Tónlist

Þegar Phil Spector gaf heiminum jólagjöf