Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Umfangsmikil bólusetningarherferð hafin á Indlandi

17.01.2021 - 01:53
epa08941039 A beneficiary gets a dose of a Covid-19 vaccine shot, at the All India Institute Of Medical Sciences (AIIMS) in New Delhi, India 16 January 2021. One of the world's biggest and nationwide COVID-19 vaccination drive is launched by Indian prime minister Narendra Modi aimed at inoculating 30 million people in first drive that include front line workers like Accredited Social Health Activist (ASHA) doctors, MBBS students, nurses etc.  EPA-EFE/RAJAT GUPTA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Einhver umfangsmesta bólusetningarherferð heims hófst í Indlandi í gær. Milljónum skammta af bóluefnunum Covishield og Covaxin var dreift um landið síðustu daga. Stefnt er að því að bólusetningu 300 milljóna manna verði lokið í landinu snemma í ágúst. 

Um 1,3 milljarður manna býr í Indlandi, og því ærið verk framundan. Byrjað verður á að bólusetja um tíu milljónir heilbrigðisstarfsmanna, svo verður bólusett lögreglumenn, hermenn og aðra framlínustarfsmenn. Að því loknu verða allir yfir fimmtugt bólusettir, auk yngra fólks með alvarleg undirliggjandi heilsufarsvandamál.

Fólk gæti áfram að sóttvörnum

Forsætisráðherrann Narendra Modi flutti ávarp áður en herferðin hófst. Hann sagði þetta sýna heiminum hvers Indverjar eru megnugir. Yfir tíu milljónir hafa greinst með COVID-19 á Indlandi. Aðeins hafa greinst fleiri í Bandaríkjunum.

Modi greindi frá því að fylgst verði með árangrinum í gegnum snjallsímaforrit. Þannig verði tryggt að enginn verði útundan, hefur fréttastofa BBC eftir honum. Hann hvatti fólk til þess að gæta áfram að sóttvörnum, til að mynda með því að bera grímu og halda fjarlægð.

Óvissa um annað bóluefnið

Indverska lyfjaeftirlitið hefur gefið leyfi fyrir báðum lyfjum. Covishield er nafnið sem Indverjar gáfu bóluefninu frá Oxford háskóla og AstraZeneca. Covaxin er framleitt af indverska lyfjafyrirtækinu Bharat Biotech. Einhverjir hafa lýst áhyggjum yfir virkni þess síðarnefnda, þar sem leyfið var gefið áður en niðurstöður þriðja hluta prófana hafa litið dagsins ljós. Bæði eftirlitið og framleiðandinn segja bóluefnið þó öruggt, og niðurstöðurnar sýni fram á það þegar þær verða birtar í febrúar.