Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Tvö fundin látin í brunarústum hússins á Andøya

17.01.2021 - 12:22
Aðfaranótt 16. janúar 2021 brann bústaður til grunna á Andøya í Norður-Noregi. Fimm fórust í brunanum en einn komst af sjálfsdáðum út.
 Mynd: John Inge Johansen/NRK
Björgunarfólk hefur fundið tvö lík í brunarústum húss á Andøya í Norðurlandsfylki í Noregi. Ekki hafa enn verið borin kennsl á þau en vonast er til að krufning leiði í ljós hver þau eru.

Sex voru í húsinu þegar eldur kom upp í því aðfaranótt laugardags þar af fjögur börn undir sextán ára aldri. Einn komst út úr brennandi húsinu og gat kallað til hjálp en enn er þriggja saknað úr brunanum og eru talin af.

Rannsóknarlögregla og tæknimenn lögreglu eru enn að störfum á brunastaðnum. Norska ríkisútvarpið hefur eftir Jørn Karlsen, sem stjórnar lögregluaðgerðum, að rannsókn muni halda áfram svo lengi sem þurfa þyki.

Karlsens segist sömuleiðis vongóður um að hægt verði finna lík allra og að hægt verði að þekkja þau látnu. Rannsakendur álíta að langur tími kunni að líða uns hægt verði að komast að upptökum eldsvoðans. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV