Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Stefna að því að ferma oftar og færri í senn

17.01.2021 - 18:31
Mynd með færslu
 Mynd: Grafarvogskirkja
Rúmir tveir mánuðir eru þangað til fermingar eru ráðgerðar. Guðrún Karls Helgudóttir, sóknarprestur í Grafarvogskirkju í Reykjavík, segir að stefnt sé að því að ferma oftar og færri í senn. Þá verði einnig boðið upp á fermingu í sumar. 

„Við hér í Grafarvogi og ég held í mörgum kirkjum stefnum á að hefja fermingar í lok mars. En við erum eiginlega svolítið róleg ennþá. Við bíðum og sjáum hvað verður. Við búumst ekki við því að það verði búið að bólusetja alla í lok mars og byrjun apríl. Það sem við stefnum á að gera hér að fermingarbörn sem vilja fái að halda sínum fermingardegi og vera bara með minni fermingar eins og við verðum í haust og þannig reyna að halda okkur innan fjöldatakmarkana. Við vitum ekki hverjar þær verða á þeim tíma og þess vegna erum við að bíða. En ég býst við við bjóðum upp á sumarfermingar líka fyrir þau sem vilja færa sig,“ segir Guðrún.

En hvar fer fermingarfræðslan fram?

„Hún var á netinu frá október fram í desember og gekk bara mjög vel,“ segir Guðrún. 

Meiri þátttaka en fyrir faraldur

„Fermingarbörn taka þátt í helgistundum á netinu. Það er mikil þátttaka og foreldrar eru mjög virk í þessu núna og jafnvel virkari en áður ef eitthvað er. Þau hafa líka fengið ákveðin hlutverk sem þau voru ekki með áður,“ segir Guðrún. Þannig kvitti foreldrar fyrir á Facebook-síðu kirkjunnar að fermingarbarnið hafi fylgst með streymi af messu.

„En í desember byrjuðum við aftur með fræðslu af því að þá voru grunnskólarnir byrjaðir aftur og við í rauninni féllum undir þetta sama,“ segir Guðrún.

Þið stefnið sem sagt að því að ferma oftar og þá færri í senn?

„Já, fleiri fermingar hvern dag sem búið var að ákveða. Við gerðum það í haust. Vorum með 3-4 fermingar á degi og miklu færri í fermingu. Þá fengu ekki að koma mjög margir með hverju fermingarbarni. Við erum tilbúin í það fyrirkomulag,“ segir Guðrún.

Hversu mörg eru fermingarbörnin? 

„Við erum með milli 160 og 170 í Grafarvogskirkju,“ segir Guðrún.

 

Fréttastofa leitaði eftir upplýsingum hjá Siðmennt um tilhögun ferminga en fékk ekki svör.