Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Óhugur yfir að svona geti gerst í okkar rólega hverfi“

17.01.2021 - 11:49
Mynd með færslu
 Mynd: politi.dk
„Það var óhugur í fólki yfir að svona lagað gerist í okkar rólega hverfi,“ segir Kolbrún Guðmundsóttir íbúi í Gladsaxe, í samtali við fréttastofu. Allir hafi þó haldið ró sinni. Kaupmannahafnarlögreglan gerði bílsprengju óvirka í hverfinu í gærkvöldi. Málið er nú rannsakað sem tilraun til manndráps.

„Fólki fannst þetta aðeins of nálægt sér. Fólk var ekki hrætt. Við upplifðum að lögreglan og slökkviliðið framkvæmdi allt mjög vel. Það var engin panik eða álíka.“

Kolbrún segir alla hafa haft trú á að lögreglan vissi hvernig ætti að bregðast við sem hafi reynst rétt, segir Kolbrún og að fólk sem var að heiman mátti ekki fara heim eftir að hverfið var rýmt.

Hún segist ekki vilja hugsa það til enda hvað hefði geta gerst. „Við erum með stóra stofuglugga sem snúa að þessu bílastæði þar sem bíllinn stendur og aðrir íbúar eru með þetta bilastæði beint fyrir utan gluggana hjá sér.“

Í hverfinu, sem byggt er upp á svæðinu þar sem danska ríkisútvarpið hafði áður aðsetur, búa að sögn Kolbrúnar margar barnafjölskyldur í sex hæða fjölbýlishúsum.

„Þetta var auðvitað óþægilegt að svona gerist hérna í hverfi þar sem búa margar barnafjölskyldur,“ segir Kolbrún. Fólki sem þurfti að yfirgefa heimili sín var komið fyrir í gömlu DR-byggingunni, 16 hæða húsi sem stendur inn á milli blokkanna, rétt fyrir kvöldmat í gærkvöldi og Kolbrún segist hafa verið komin heim rétt fyrir klukkan tvö í nótt.

„Það var því nóg pláss og Gladsaxe Kommune kom með pizzur handa öllum“, segir Kolbrún. „Þegar nær dró miðnætti var fólk orðið þreytt og sumir höfðu lagst á gólfið til að sofa, en samt voru börnin þarna inni ótrúlega góð.“

Kolbrún álítur að um 300 manns hafi þurft að yfirgefa heimili sín, þar af minnsta kosti þrjár íslenskar fjölskyldur. „Eftir að við komum heim þá var lögreglan enn að vinna hérna fyrir utan með sporhunda og við gátum heyrt í hundunum fram eftir nóttu.“

Núna segir Kolbrún mikla kyrrð yfir í hverfinu, börn séu ekki einu sinni úti að leika sér enda telur hún væntanlegt að allir hafi sofið lengi.