Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Lík allra sem fórust í brunanum á Andøya fundin

17.01.2021 - 18:23
Erlent · Andlát · Banaslys · Bruni · Eldsvoði · Evrópa · lögregla · Noregur · Slökkvilið
Eldur kviknaði í sumarbústað í Risøyhamn á Andøya í Noregi aðfaranótt 16. janúar 2021. Sex manns voru í bústaðnum og tókst einum að komast út.
 Mynd: Lögreglan Lofoten og Vesteråle
Björgunarfólk hefur fundið lík allra þeirra fimm sem fórust í eldsvoðanum í Andøya í Norðurlandsfylki í Noregi aðfaranótt laugardags. Ekki hafa enn verið borin kennsl á hin látnu en vonast er til að krufning leiði í ljós hver þau eru.

Norska ríkisútvarpið greindi frá þessu á vef sínum á sjötta tímanum í dag.  Haft er eftir Per Erik Hagen hjá lögreglunni í Lofoten og Vesterålen að dagurinn sé þungbær fyrir samfélagið allt, þótt ákveðinn léttir fylgi því að öll þau sem saknað var hafi fundist.

Sex voru í húsinu sem brann, þar af fjögur börn undir sextán ára aldri. Einn komst út úr brennandi húsinu og gat kallað eftir hjálp. Lögregla segir engan grun uppi um að glæpsamlegt athæfi hafi orðið til þess að eldurinn kviknaði en nú verði unnið hörðum höndum að því að greina orsakir eldsvoðans.