Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Líðan feðganna óbreytt – Flateyrarkirkja opnuð

17.01.2021 - 14:41
Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV
Fólkið sem tók þátt í björgunaraðgerðum í Skötufirði í Ísafjarðardjúpi í gær er laust úr úrvinnslusóttkví. Líðan hinna slösuðu er óbreytt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum.

Þriggja manna fjölskylda var í bifreið sem hafnaði í sjónum í gærmorgun. Í tilkynningunni segir að líðan hinna slösuðu, barns og föður þess, sé enn óbreytt. Fyrr í dag greindi lögregla frá því að konan hefði látist á gjörgæsludeild Landspítala seint í gær.

Viðbragðsaðilar lausir úr sóttkví

Viðbragðsaðilar voru sendir í úrvinnslusóttkví sökum þess að fjölskyldan var nýkomin frá Póllandi og var á leið heim til sín í sóttkví þegar slysið varð. Heimili þeirra er á Flateyri og er sorgin mikil í samfélaginu þar. Sóknarpresturinn í Önundarfirði hefur opnað Flateyrarkirkju og býður þeim sem vilja að koma þangað og eiga stund milli kl.14:00 og 16:00. Tekið er fram að gætt sé vel að öllum sóttvarnareglum.