Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hart lagt að Rússum að láta Navalny lausan

Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráðið
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir sér mjög brugðið yfir handtöku rússneska andófsmannsins Alexei Navalnys í dag. Guðlaugur hvetur rússnesk yfirvöld til að láta hann umsvifalaust lausan og láta allt uppi sem þau vita um eiturárásina á andófsmanninn.

Charles Michel, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins segir handtökuna algerlega óásættanlega og leggur fast að Rússum að leysa hann þegar úr haldi. 

Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafi Joe Biden viðtakandi Bandaríkjaforseta, er á sama máli. Hann segir Rússa eiga að frelsa Navalny umsvifalaust og þeim refsað sem ráðast að lífi hans með þessum hætti.

„Árásir stjórnvalda í Kreml á Navalny eru ekki aðeins mannréttindabrot, heldur lítilsvirðing við Rússa sem vilja að á þá sé hlustað,“ tísti Sullivan fyrr í kvöld. 

Gabrielius Landsbergis utanríkisráðherra Litháens tekur í sama streng og krefst þess að Evrópusambandið grípi þegar til refsiaðgerða gegn Rússum vegna handökunnar. Hann segir að þau sem beri ábyrgð þurfi að taka afleiðingum gerða sinna. 

Fleiri þjóðarleiðtogar hafa tjáð sig með svipuðum hætti í kvöld,  Ine Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs og Jeppe Kofod danskur starfsbróðir hennar.

Navalny sneri frá Þýskalandi til Rússlands í dag eftir að eitrað var fyrir honum í ágúst, þrátt fyrir viðvaranir um að hann gæti átt handtöku yfir höfði sér.

Fréttin var uppfærð kl. 21:41.