Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Hættur eftir 25 ára starf - álagið hafði áhrif

17.01.2021 - 19:19
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga á Landspítalanum, hefur sagt upp störfum. Hann segist hafa árum saman reynt að fá fram skipulagsbreytingum til að draga úr álagi á bráðamóttöku en án árangurs. Jón Magnús segir að ástæða vistaskiptanna sé að hluta til álagið sem verið hefur á bráðamóttökunni þar sem sjúklingar þurfa ítrekað að liggja frammi á göngum.

„Ég byrjaði að vinna á Landspítalanum fyrir tuttugu og fimm árum og 24 af þeim árum hef ég unnið á bráðamóttökunni,“ segir Jón Magnús.

En núna hefur hann sagt upp og hefur störf hjá Heilsuvernd eftir mánuð. En hvað kemur til?

„Í fyrsta lagi er það að þetta er ofboðslega spennandi verkefni sem ég er að fara í framkvæmdastjórn hjá Heilsuvernd. Síðan er þetta langur tími á einum stað og margir hlutir sem hafa breyst á þeim tíma og aðrir hlutir ekki,“ segir Jón Magnús. 

Álagið ómennskt

Fréttastofa RÚV hefur flutt margar fréttir af álagi og þrengslum á bráðamóttöku Landspítalans. Til að mynda var deildin sett á þriðja viðbúnaðarstig vegna plássleysis um helgina í mars 2019. Tíu þurftu að liggja frammi á göngum bráðamóttökunnar um jólin 2019. Þá voru 82 inniliggjandi á bráðamóttökunni í janúar í fyrra, þrjátíu fleiri en er pláss fyrir. Þá sagði forstjóri Landspítalans að álagið á bráðamóttökunni væri allt að því ómennskt þegar það er mest.

„Því miður hefur ekki gengið nægilega vel að breyta skipulagi innan spítalans sem kemur í veg fyrir að þetta vandamál komi upp aftur,“ segir Jón Magnús.

Sú staðreynd á hún þátt í því að þú telur að núna sé komið gott?

„Já, kannski að hluta til en stærsta ástæðan er að nú býðst annað spennandi verkefni,“ segir Jón.

Jón kallar eftir auknum sveigjanleika í skipulagi spítalans.

„Og sé auðveldara fyrir Landspítalann að taka við þeim fjölda sem þarf að leggjast inn þannig að það sé ekki endurtekið fyrst og fremst ábyrgð bráðamóttökunnar. Þetta hefur brunnið mjög mikið á okkur á bráðamóttökunni og þess vegna er þetta mesta forgangsverkefnið hjá okkur en það eru ekki sammála því innan spítalans,“ segir Jón Magnús.

Auk skipulagsbreytinga sé brýnt að þjónusta við aldraða verði bætt inni á heimilum þeirra. Þá þurfi að fjölga hjúkrunarrýmum.

Þrengslin óviðunandi

Álagið tók að aukast fyrir sex árum með gangainnlögnum og þrengslum. Jón segir slíkt ekki boðlegt.

„Þetta ástand er náttúrulega óásættanlegt. Það er óásættanlegt fyrir þá sem þurfa að leita til okkar hvort sem það eru einstaklingar sem þurfa að leggjast inn eða ekki,“ segir Jón Magnús.

Fleiri mistök í meðferð sjúklinga

Það dró heldur úr álagi þegar COVID-göngudeild tók til starfa í fyrra. En álagið er mikið. Eykur þetta líkurnar á því að það verði gerð mistök í meðferð sjúklinga?

„Við sjáum a.m.k. gríðarlega fækkun í þess konar atvika á þessu ári þegar ástandið hefur verið miklu betra og þegar það koma toppar í þessu álagi þá sjáum strax að atvikunum fjölgar,“ segir Jón Magnús.
 

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV