Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Bandaríkjastjórn færir námufyrirtækjum land innfæddra

17.01.2021 - 05:35
Mynd með færslu
 Mynd: Wiki Commons
Meðal síðustu verka ríkisstjórnar Donalds Trump er að veita Rio Tinto og BHP Billiton leyfi til námugraftar á helgu svæði innfæddra Bandaríkjamanna í Arizona. Landsvæðið er um tíu ferkílómetrar, nefnist Oak Flat og hefur mikla þýðingu fyrir apatsja í Bandaríkjunum. Námufyrirtækin hyggjast reisa eina stærstu koparnámu Bandaríkjanna á svæðinu.

Wendsler Nosie, stofnandi samtakanna Apache Stronghold, jafnar afhendingu landsins við árásir gegn innfæddum og þjóðum þeirra fyrr á öldum. „Áður voru það byssupúður og sjúkdómar, nú er það hirðulaust skrifræði," hefur Guardian eftir honum. Komið sé fram við innfædda eins og þeir séu ekki til eða þá ósýnilegir. Það séu þeir svo sannarlega ekki og þeir láti ekki koma svona fram við sig, segir Nosie.

Bandaríkjastjórn flýtti umhverfismati á landinu um heilt ár til þess að ná að samþykkja eignafærsluna. Embættismenn í skógarþjónustu í héraðinu greina frá miklum þrýstingi yfirmanna sinna úr landbúnaðarráðuneytinu.

„Aldrei aftur,“ sagði stjórnandi Rio Tinto

Rio Tinto komst í fréttirnar á síðasta ári fyrir að leggja helgan reit ástralskra frumbyggja í rúst, það þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir. Eftir að hafa lagt einhverjar elstu þekktu mannabyggð Ástralíu í rúst hlaut fyrirtækið mikla gagnrýni frá almenningi og fjárfestar létu vel í sér heyra. Simon Thompson, stjórnandi Rio Tinto, baðst þá afsökunar og lofaði því að fyrirtækið myndi aldrei nokkurn tímann leggja sögulega eða menningarlega mikilvæg landsvæði í rúst undir námuvinnslu.

Oak Flat, sem nefnist Chi'chil Bildagoteel á máli apatsja, er á bandarískri skrá yfir sögulega staði. Landsvæðið er andlega og menningarlega mikilvægt fyrir vel á annan tug þjóða innfæddra í suðvesturhluta Bandaríkjanna. Þar eru hundruð fornleifareita sem hægt er að rekja allt aftur um 1.500 ár. Apatsjaþjoðir hafa haldið helgiathafnir á landinu öldum saman.

Jörðin undir helgireitunum er hins vegar auðug af kopar. Talið er að æðin þarna sé ein sú stærsta í heiminum, að virði allt að milljarði bandaríkjadala. 

Mörg mál fyrir dómi

Nokkur mál eru nú fyrir dómi til þess að fá þessari ákvörðun snúið við. Eftir mikinn þrýsting samþykkti skógarþjónustan að fresta eignaflutningnum um 55 daga. Þá ætla fulltrúadeildarþingmaðurinn Raul Grijalva og öldungadeildarþingmaðurinn Bernie Sanders að leggja fram frumvarp á Bandaríkjaþingi þar sem komið er í veg fyrir að landið verði fært úr höndum apatsja.