Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Bandaríkin vilja rannsókn í Úganda

17.01.2021 - 03:19
epa08934908 Election posters for incumbent Ugandan president Yoweri Kaguta Museveni line a street in the capital Kampala a day ahead of the presidential elections in Uganda, 13 January 2021. The Ugandan presidential elections are due to take place on 14 January 2021, with Bobi Wine emerging as the top opposition challenger against incumbent Ugandan president Yoweri Kaguta Museveni, who has been President since 1986. President Yoweri Museveni has ordered the shutdown of some social media and messaging apps including Facebook ahead of the election.  EPA-EFE/STR
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandaríska utanríkisráðuneytið segist hafa þungar áhyggjur af fjölda frásagna af ofbeldi og óreglu í tengslum við forsetakosningarnar í Úganda í vikunni. Yoweri Museveni var lýstur sigurvegari kosninganna í gær, og stefnir allt í hans sjötta kjörtímabil í embætti.

Morgan Ortagus, talskona bandaríska utanríkisráðuneytisins, segir andrúmsloftið á kjördag hafa verið ógnvekjandi. Ráðuneytið hafi bæði fengið veður af ofbeldi í aðdraganda kosninganna og skipulagsleysi á kjördag.

Helsti andstæðingur Museveni, Bobi Wine, sakar forsetann um víðtækt kosningasvindl. Ortagus kallar eftir því að óháð og ítarleg rannsókn verði gerð á ásökunum um ofbeldi og svindl. Museveni hefur verið sakaður um að grafa undan andstæðingum sínum og fjölmiðlum í aðdraganda kosninganna. Þá var kosningabaráttan ein sú blóðugasta á síðari tímum, þar sem vel á sjötta tug lét lífið.

Kjörstjórn segir Museveni hafa hlotið 58,6 prósent atkvæða, en Wine hlaut rúmlega þrjátíu prósent. Wine segir herinn sitja um heimili sitt, og hefur AFP fréttastofan eftir stuðningsmönnum hans að honum sé haldið í nokkurs konar stofufangelsi. Stjórnvöld segja herinn tryggja öryggi Wine. 

Wine greindi frá því í gær að hann ætlaði að færa sönnur á kosningasvindl um leið og stjórnvöld opna aftur fyrir internetið í Úganda. Lokað var fyrir netið rétt fyrir kosningar.