
Bandaríkin vígbúast gegn eigin borgurum
Ekki koma til Washington
Í fréttaskýringu BBC kemur fram að eftir atburðina í Washington á Capitol Hill, 6. janúar, hafi öryggismál og viðbúnaður verið hertur til muna í borginni og er hæsta viðbúnaðarstig í gildi. Biden tekur formlega við forsetaembættinu af Donald Trump á miðvikudag, 20. janúar.
Muriel Bowser, borgarstjóri Washington DC, biðlar til almennings í sjónvarpsávarpi um að koma ekki til Washington á miðvikudag, heldur fylgjast með athöfninni að heiman.
„Það er besta leiðin til að tryggja öryggi allra,” segir hún.
Fleiri hermenn í Washington en í stórum stríðum
20.000 hermenn hafa verið sendir til Washington til að standa vörð um athöfnina og eru margir þeirra komnir á svæðið. Samkvæmt BBC eru þetta fleiri amerískir hermenn heldur en þeir sem eru í Afganistan, Írak og Sýrlandi - samanlagt.
Hermaðurinn Brigdet Wood segir í viðtali við BBC að hún sé vissulega spennt yfir verkefninu, en líka kvíðin.
„Maður veit aldrei hverju maður á von á,” segir hún.
Gaddavírsgirðingar og neglt fyrir glugga
Öryggisgæsla og viðbúnaður hefur verið aukinn við öll þekktustu mannvirki borgarinnar, með vörubílum, járngirðingum með gaddavír og lokunum. Margir verslunareigendur hafa sömuleiðis neglt fyrir glugga verslana sinna til að þeir verði ekki brotnir ef allt verður vitlaust.
Fjölmörgum götum í nágrenni Capitol Hill í Washington hefur verið lokað með steypuklumpum og járngirðingum til að varna því að áhlaupið og ofbeldið sem gerðist í þinghúsinu 6. janúar, endurtaki sig ekki. Sömu sögu er að segja um The National Mall, sem er alla jafna pökkuð af fólki þegar vígsluathöfn forseta Bandaríkjanna fer fram, en leyniþjónustan fór fram á að henni yrði lokað.
Trump hefur sagt að hann ætli ekki að mæta á athöfnina og Biden sagði það hárrétta ákvörðun hjá honum.