
Pelosi: Þingmenn mögulega ákærðir
Þingkonan Mikie Sherrill kveðst hafa séð starfsbræður sína fara með hópa í könnunarferð um þinghúsið daginn fyrir óeirðirnar. Yfir 30 þingmenn Demókrataflokksins skrifuðu undir bréf þar sem krafist er frekari upplýsinga um könnunarferðirnar.
Forsetinn bíður réttarhalda
Þegar hafa þingmenn fulltrúadeildarinnar samþykkt að ákæra fráfarandi forseta, Donald Trump, fyrir að egna stuðningsmenn sína til árásarinnar. Hann hélt fund með þeim í Washington 6. janúar, þar sem hann hvatti þá til þess að berjast fyrir sig. Hann hefur síðan fordæmt aðgerðir stuðningsmanna sinna.
Ákæran er ekki enn komin á borð öldungadeildarinnar, sem sér um réttarhöldin yfir forsetanum. Ólíklegt er að þau fari fram áður en Joe Biden tekur við embætti í næstu viku. Tveir þriðju hluta þingmanna öldungadeildarinnar verða að telja forsetann sekan til þess að hann verði dæmdur.
Ráðuneyti skoðar verkferla
Rannsókn er hafin innan dómsmálaráðuneytisins um hvort þar hafi verið gerð mistök í aðdraganda óeirðanna. Michael Horowitz, yfirmaður innri rannsóknardeildar ráðuneytisins, segir að athugað verði hvort einhverja veikleika sé að finna í verkferlum ráðuneytisins, stefnu eða vinnu þeirra. 175 sakamál eru til rannsóknar hjá ráðuneytinu í tengslum við innrásina í þinghúsið, en talið er að þau verði fleiri en 300 hefur Guardian eftir saksóknara.
Starfandi saksóknari Washingtonborgar, Michael Sherwin, sagði á blaðamannafundi að með fjölda ásakana til rannsókna í tengslum við óeirðirnar. Hann sagði sífellt fleiri ábendingar berast um aðild lögreglumanna að árásinni, bæði núverandi og fyrrverandi.