Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Myntin vegur 1.400 tonn og gæti fyllt heilan sal

16.01.2021 - 09:33
Mynd: Rúv / Peningar
Fyrir fjörutíu árum flykktust Íslendingur í banka til að skipta á gömlum krónum fyrir nýjar. Þá um áramótin varð gjaldmiðilsbreyting, ný mynt og nýir seðlar og hver ný króna virði hundrað þeirra gömlu. Þetta var gert í óðaverðbólgu þess tíma, hún kallaði á að gefnir yrðu út seðlar og slegin mynt með hærra verðgildi. Þá fóru menn að hugsa um hvort hægt væri að skera tvö núll aftan af krónunni eins og það var stundum orðað og færa upphæðir nær því sem var í nágrannalöndunum.

Svipað hafði verið gert í Frakklandi og Finnlandi um áratug áður, segir Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóri í Seðlabanka Íslands. Sumir höfðu áhyggjur af því að hlutir myndu hækka og verðskyn brenglast en Stefán segir að eiginlega hafi meira umræða verið um þær efnahagsráðstafanir sem þyrfti að grípa til til að vinda ofan af verðbólgunni sem fór upp undir 80% um þetta leyti. Það hafi reyndar tekið upp undir áratug áður en þær aðgerðir náðu tilætluðum árangri. 

Verðbólga í hæstu hæðum

Á verðbólguárum brann sparnaður landsmanna upp en þeir sem voru að byggja komust vel frá því að taka óverðtryggð lán. Þess vegna var verðtryggingin tekin upp en gekk svo allt of langt, að sögn Stefáns. Það hafi ekki tekist að vinda ofan af verðbólgunni fyrr en dregið var úr verðtryggingunni: Menn hafi svo komist á gott ról undir lok síðustu aldar í baráttunni við verðbólguna.  

Skiptin kostuðu um hálfan milljarð þá

Það þurfti að kynna þetta vel, það voru gefnir út bæklingar sem var dreift á öll heimili í landinu, útbúnar auglýsingar í fjölmiðlum.  Sendinefndir fóru út um allt land, í fjármálafyrirtæki, verslanir og því um líkt þannig að  þetta var mjög mikil aðgerð og kostaði heilmikla peninga segir Stefán þó að það teljist kannski ekki mikið í dag.

Eitthvað um hálfur milljarður sem þetta er talið hafa kostað. En samt tókst þetta mjög vel, mennt töluðu um nýja krónu og gamla krónu um tíma en vissu samt að menn myndu bara tala áfram um krónu. 

Sumir höfðu áhyggjur af ávísunum á nýársnótt

Fyrirmæli voru gefin um að verð skyldi prenta á vörur með rauðu letri í nýkrónum og í gömlu krónunum með svörtu og eitthvað vafðist umreikningurinn fyrir fólki fyrstu dagana. Þetta var um áramótin og í tímaritinu Frjálsri verslun var nokkru fyrr haft eftir viðmælanda, kannski í hálfkæringi að þetta gæti þvælst fyrir þeim sem vildu fagna áramótum. Því menn yrðu að gæta að því að fyrir og eftir miðnætti munaði hundraðfalt á fjárhæðum sem skrifaðr voru á ávísanir. 

150 Íslendingar með greiðslukort

Á þessum tíma var fólk að færa sig smám saman yfir í greiðslukortin segir Stefánl og reiðufé í umferð var að minnka en hafði þó um nokkurn tíma verið minna hér en víða. 

Þegar Seðlabankinn tók til starfa 1961 var reiðufé í umferð á við 5% af landsframleiðslu. Síðan fór fólk að færa sig yfir í ávísanir og þetta fór niður í eitt prósent og við notum einna minnst af öllum þjóðum í heiminum af reiðufé. Kortin tóku síðan við og alveg fram undir fjármálahrunið 2008 þá notuðum við hlutfallslega minnst af seðlum í heiminum og notum enn mjög lítið að seðlum miðað við margar aðrar þjóðir. 

 

Þótti reyndar ástæða til í fyrrnefndu blaði Frjálsrar verslunar að lýsa greiðslukortum sérstaklega; þetta væru yfirleitt lítil plastspjöld með upphleyptum stöfum þannig að hægt væri að þrykkja mynd þeirra yfir á blað, 1980 höfðu um 150 Íslendingar leyfi til að nota slík kort á ferðalögum erlendis. 

Á erfiðum tímum vilja margir eiga fé í handraðanum

Kortin og svo greiðslur með síma og í heimabanka hafa orðið til þess að reiðufé er ekki notað nema í um 10% viðskipta nú, segir Stefán. Þó sé það þannig að á erfiðum tímum eins og í hruninu og aftur í kófinu þá aukist reiðufé í umferð. Ýmsum þyki öryggi í því að hafa seðla hjá sér, það sjáist til dæmis að meira fari út af tíu þúsund króna seðlum en búist var við.

Þrír seðlar horfnir og aurarnir allir

Nokkrir þeirra seðla sem voru gefnir út 1981 eru horfnir, það eru tíu króna, fimmtíu króna og hundrað króna seðlar seðlar sem eru komnir í mynt og aurarnir sem voru í umferð fyrir fjörutíu árum eru horfnir. Þeir hafa helst gildi fyrir mynt og seðlasafnara. Þá fara gamlir túkallar sem voru slegnir um 1960 á þúsundir króna þó að ekki sé hægt að nota í venjulegum viðskiptum. 

Töluvert í að krónan sé á sama stað og hún var fyrir breytingu

 

Verðbólgan æddi áfram fyrstu árin eftir myntbreytinguna og var miklu meiri en víða í nágrannalöndum en þó að nýja krónan hafi þá rýrnað hratt er langt frá því að við séum komin í sömu stöðu og þá var segir Stefán og bendir á að dollarinn hafi þá kostað um fjögur fimm hundruð krónur en er í kringum 130 krónur nú. 

Íslensk mynt gæti fyllt peningatank Jóakims Aðalandar

Þó að dregið hafi úr notkun reiðufjár eru um 80 milljarðar í peningum utan Seðlabankans, megnið í seðlum, þar um 30 millJarðar  í 10 þúsund króna seðlum. Það eru ekki nema nokkrir milljarðar í myntinn. Hún vegur líklega um 1.400 tonn og gæti fyllt heilan sal væri henni safnað saman eða jafnvel peningatank Jóakims Aðalandar. Seðlarnir tækju ekki nema nokkra rúmmetra, segir Stefán.

Mikið liggur af mynt í skápum og skúffum

Við myntbreytingu og innköllun skila sér ekki allir peningar. Verðmætustu peningarnir koma en við myntbreytinguna og innköllun auranna kom ekki nema um helmingur af verðminnstu peningunum. Myntin gæti verið dreifð um allan heim, endist enda betur en seðlarnir sem þola ekki nema frá einu upp í fimm-sex ár í brúki. 

 

Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV