Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mikið nákvæmnisverk að tengja taugar og æðar

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Það krefst mikillar nákvæmni að tengja æðar og taugar þegar handleggir og axlir eru græddar á fólk, segir handaskurðlæknir. Miklu skipti að blóðstreymi til vöðva stöðvist í sem stystan tíma.

Guðmundur Felix Grétarsson varð á miðvikudag fyrstur í heimi til að fá á sig grædda handleggi og axlir. Aðgerðin var gerða á háskólasjúkrahúsi í Lyon og tók um fimmtán klukkustundir. Fimmtíu læknar og hjúkrunarfræðingar af fjórum sjúkrahúsum tóku þátt í henni.  Aðgerðin var mjög umfangsmikil.

„Já, hún er óneitanlega mjög stór, að vera að fara inn í æða- og taugakerfið þetta hátt uppi og krefst mikillar nákvæmni í tengjum æða og tauga og samtímis að hlutirnir gangi rétt fyrir sig. Því annars vegar þarf að taka handleggina af gjafanum og síðan að vera tilbúin strax til að græða þá í kjölfarið. Þannig að þessi tími þar sem það er enginn blóðrás á útlimunum sé sem allra stystur. Vöðvar til dæmis þola mjög illa blóðleysi í einhvern tíma. Þannig að það er gríðarlega mikilvægt að þessi tími sé eins stuttur og kostur er,“ segir Jóhann Róbertsson handaskurðlæknir á Landspítala.

Hann hefur grætt fingur og hendur á fólk. Hann hefur þó ekkert komið að þessari aðgerð. 

Guðmundur Felix missti handleggina fyrir tuttugu árum. Hann fékk fljótlega mikinn áhuga á handaágræðslum. Árið 2007 náði hann tali af þekktum frönskum skurðlækni, Jean-Michel Dubernard, þegar sá hélt erindi hér á landi. Dubernard og teymi hans urðu fyrir tuttugu árum fyrst í heiminum til að græða hendur á mann. Dubernard er komin á eftirlaun en hann er sá læknir sem leitt hefur verkefnið nú.

Jóhann segir að ef aðgerðin gekk vel gefi það nýja möguleika í læknisaðgerðum.

„Það skapar líka viss vandamál hvað þetta er hátt uppi því að öll endurítaugun niður í handlegginn tekur tíma, því lengra sem taugar þurfa að vaxa því meiri hætta á að eitthvað beri út af,“ segir Jóhann.

Þá þurfi taugin að vaxa fram eftir handleggnum og það getur tekið tíma. Búist er við að Guðmundur Felix verði á gjörgæslu í mánuð og svo tekur endurhæfing við. Tíminn leiðir í ljós hversu mikil not hann hefur af nýju handleggjunum.

„Það er viðbúið eftir handaágræðslu að þú situr eftir með mikla skynskerðingu, vöðvarýrnun, stirðleika jafnvel. Þú ert aldrei að endurheimta gamla handlegginn í rauninni. En þú færð samt kannski eitthvað sem þú lítur á sem hluta af sjálfum þér,“ segir Jóhann.