Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Hátt í tuttugu manns úr björguninni í úrvinnslusóttkví

16.01.2021 - 15:38
Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV
Hátt í tuttugu manns, sem komu að björgun fólksins úr bílnum sem lenti í sjónum í Skötufirði í morgun, eru komin í úrvinnslusóttkví. Í bílnum var fjölskylda, maður og kona fædd 1989 og 1991, og ungt barn þeirra. Þau komu frá Póllandi í nótt og voru á leið heim til sín í sóttkví eftir fyrri sýnatöku á Keflavíkurflugvelli.

Neikvæð niðurstaða úr fyrri sýnatöku

Niðurstöður úr sýnatöku fólksins voru neikvæðar og bárust þær rétt eftir klukkan 15 í dag. Hins vegar reyndist töluvert mikið um smit í vélinni samkvæmt heimildum fréttastofu. Því var ákveðið að setja þau sem voru í hvað mestu návígi við fólkið í björgunaraðgerðunum í úrvinnslusóttkví. Það eru hátt í tuttugu manns. 

Karl Ingi Vilbergsson, lögreglustjóri á Vestfjörðum, segir að boðið verði upp á sóttkví í farsóttarhúsi í Holti í Önundarfirði fyrir þau sem það kjósa. Fólkið fer í sýnatöku á morgun og eftir að niðurstöður berast úr henni verður ákveðið með framhaldið. 

Vegfarendur unnu þrekvirki

Fjórir vegfarendur á þremur bílum eru sagðir hafa unnið mikið þrekvirki þegar þeir komu á staðinn. Þeir náðu fjölskyldunni út úr bílnum og veittu fólkinu fyrstu hjálp þar til björgunarsveitin í Súðavík komst á staðinn. Þeim hefur verið boðin áfallahjálp. Flughálka var á veginum um Skötufjörð í morgun og var honum lokað eftir slysið.

Fjölskyldan var flutt með þyrlum Landhelgisgæslunnar á Landspítalann í Reykjavík, á bráðamóttökuna í Fossvogi og á Hringbraut. Engar upplýsingar fást um líðan þeirra.