Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Fornleifafundur varpar ljósi á tíma Nýja ríkisins

16.01.2021 - 20:06
Mynd með færslu
 Mynd:
Fornleifa- og ferðamálaráðuneyti Egyptalands tilkynnti í dag um merkan fornleifafund í greftrunarsvæði við Saqqara suður af Kaíró. Auk verðmætra muna fundust meira en fimmtíu skreyttar trékistur á tíu til tólf metra dýpi.

Zahi Hawass sérfræðingur í sögu Forn-Egypta sem stjórnar rannsókninni segist hafa fundið greftrunarhof Naert drottningar Teti konungs, fyrsta faraós sjöttu konungsættarinnar á tímum Nýja ríkisins.

Munirnir séu því meira en 2.500 ára gamlir. Í Saqqara er að finna á annan tug píramída og grafreiti manna og dýra tengdum Memphis, hinni fornu höfuðborg Egyptalands. Svæðið er á heimsminjaskrá UNESCO.

Í yfirlýsingu segir Hawass að þessi nýjast uppgötvun sé líkleg til að varpa ljósi á sögu Saqqara á tímum Nýja ríkisins á 16. til 11. öld fyrir Krist. Síðar á árinu er vonast til að mögulegt verði að opna nýtt safn á Giza-svæðinu.