Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Fleiri andvígir en fylgjandi þjóðgarðsfrumvarpi

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
31 prósent er fylgjandi frumvarpi um hálendisþjóðgarð sem umhverfisráðherra mælti fyrir á Alþingi í byrjun desember. 43 prósent eru því andvíg. Meira en fjórði hver segist hvorki fylgjandi né andvígur. Þetta sýna niðurstöður nýs þjóðarpúls Gallups úr netkönnun gerðri dagana 29. desember til 10. janúar. 

Ríflega 45 af hundraði eru almennt fylgjandi því að hálendi Íslands verði gert að þjóðgarði, burtséð frá frumvarpinu. Eldra fólk er líklegra til að vera andvígt frumvarpinu en yngra, konur eru frekar fylgjandi því en karlar.

Aukin menntun og hærri tekjur auka líkur á fylgi við frumvarpið og höfuðborgarbúar eru líklegri til stuðnings við það en landsbyggðarfólk. Um 39 til 45% fólks yfir þrítugu er fylgjandi því að hálendið verði gert að þjóðgarði en 56% fólks undir þrítugu. 

Kjósendur Vinstri grænna og Samfylkingar eru líklegastir til að vera meðmæltir frumvarpinu en kjósendur Miðflokksins og Framsóknarflokksins eru andvígastir því. Rúmlega fjórir af hverjum tíu segjast hafa litla þekkingu á frumvarpi umhverfisráðherra um hálendisþjóðgarð.

Þau sem segjast þekkja frumvarpið vel eru bæði líklegri til að vera andvígir því og meðmæltir, þar sem fæstir þeirra sem þekkja vel til frumvarpsins taka ekki afstöðu til þess.

Karlar segjast þekkja frumvarpið betur en konur, andstæðingar hálendisþjóðgarðs, landsbyggðarfólk og kjósendur Miðflokksins líklegust til að telja sig þekkja það vel. 

Gert er ráð fyrir að Hálendisþjóðgarður nái yfir um 30% af Íslandi, en um helmingur svæðisins nýtur nú þegar verndar. Má þar nefna Vatnajökulsþjóðgarð, Hofsjökul og Þjórsárver, Kerlingarfjöll, Landmannalaugar og Hveravelli.