Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fjögurra barna saknað eftir húsbruna í Norður-Noregi

16.01.2021 - 14:22
Erlent · Evrópa · Húsbruni · Lofoten · lögregla · Noregur · Slökkvilið
Eldur kviknaði í sumarbústað í Risøyhamn á Andøya í Noregi aðfaranótt 16. janúar 2021. Sex manns voru í bústaðnum og tókst einum að komast út.
 Mynd: Lögreglan Lofoten og Vesteråle
Fimm er saknað eftir að sumarbústaður brann til grunna í Risøyhamn á Andøya í Norðurlandsfylki í Noregi. Mikil leit stendur yfir í brunarústunum og umhverfis húsið. Samkvæmt upplýsingum lögreglu eru fjögur þeirra sem saknað er börn undir sextán ára aldri.

Norska ríkisútvarpið hefur eftir Per Erik Hagen, lögreglustjóra í Lofoten og Vesterålen, að óttast sé að börnin hafi ekki komist út úr brennandi húsinu og séu því talin af. Húsið stendur í skóglendum dal og þar sem ekkert farsímasamband er. 

Hagen segir að þetta sé afar sorglegur atburður. Einum tókst að komast út af eigin rammleik og láta vita af sér hjá nágrönnum  sem tilkynntu slökkviliði um brunann. Hann reyndi að bjarga þeim sem í húsinu voru en þegar hann sá að það var óvinnandi vegur hljóp hann fögurra kílómetra leið að næsta húsi.

Hann liggur nú á sjúkrahúsi. Aðstandendum hefur verið tilkynnt um atburðinn en tilkynning um brunann barst klukkan hálffimm í nótt að staðartíma. Þegar slökkvilið bar að garði var húsið brunnið til kaldra kola. Eldsupptök eru ókunn.

Lögregla hefur ekki viljað gefa upplýsingar um fólkið sem í húsinu dvaldi aðrar en þær að þau eru skyld. 

Fréttin var uppfærð kl. 17:38.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV