Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

„Vildi svo skemmtilega til að ég kann á hjólaskauta“

Mynd: Poppland / RÚV

„Vildi svo skemmtilega til að ég kann á hjólaskauta“

15.01.2021 - 15:09

Höfundar

Rapparinn Birnir og stórsöngvarinn Páll Óskar hafa sameinað krafta sína í nýju lagi. Myndband lagsins er kærkomin sólarskvetta í skammdeginu og þar njóta hæfileikar Birnis sín ekki einungis á tónlistarsviðinu.

„Ég svaf ekkert í nótt þetta er svo spennandi maður,“ segir Páll Óskar. Hann sat límdur við skjáinn að fylgjast með hlustunartölum lagsins Spurningar sem kom út í dag. „Lagið var að skríða yfir 10.000 á Spotify núna!“

En hvernig í ósköpunum lágu leiðir hans og Birnis saman?

„Mig hefur alltaf langað til að vinna með Palla,“ segir Birnir. „Ég var með eitthvað „visjón“ fyrir lagið og sendi það á Palla til að sjá hvort hann fílaði það og það gekk vel upp.“ Páll Óskar segir að samstarfið hafi verið hressandi og hann hafi lært nokkuð af því. 

Myndband við lagið kom út í gær. Leikstjóri er Magnús Leifsson og var það tekið upp um hásumar á milli fjöldatakmarkana. „Við rétt náðum að skjóta þetta í 500 manna leyfinu. Þannig að það er íslensk sól og sumar,“ segir Páll Óskar. Birnir sýnir eftirtektarverða takta á hjólaskautum í myndbandinu. „Það vildi svo heppilega til að ég kunni á hjólaskauta og við ákváðum að kýla á það.“

Myndbandið er draumsýn með mennskum diskókúlum en sjón er sögu ríkari.

Lovísa Rut Kristjánsdóttir ræddi við Birni og Pál Óskar Hjálmtýsson í Popplandi á Rás 2.