Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Varar við fjárlagahalla á Grænlandi

15.01.2021 - 22:09
Mynd með færslu
 Mynd: KNR
Vittus Qujaukitsoq, fjármálaráðherra Grænlands, varar við að kórónuveirufaraldurinn geti haft mjög alvarleg áhrif á ríkissjóð landsins. Qujaukitsoq segir að grannskoða þurfi öll útgjöld í framtíðinni því efnahagsaðgerðir vegna farsóttarinnar hafi verið afar þungar fyrir ríkissjóð Grænlands.

Lesendabréf í Sermitsiaq

Fjármálaráðherrann segir þetta í lesendabréfi sem birt er í dagblaðinu Sermitsiaq í dag. Hann segir að sjálfsagt hafi verið að rétta atvinnulífinu hjálparhönd en ríkissjóður hafi ekki efni á áframhaldandi útgjöldum af sama toga.

Efnahagsaðgerðir fyrir strandveiðimenn og fiskvinnslu

Nú er unnið að undirbúningi nýrra efnahagsaðgerða og Qujaukitsoq segir að hjálparpakkar til strandveiðimanna og fiskvinnslu verði að vera innan marka þess sem ríkissjóður ræður við, burtséð frá þörfinni fyrir aðstoð. Fiskverð fer lækkandi, segir fjármálaráðherrann, en útgerðin geti ekki horft til hins opinbera til að rétta af hallarekstur í framtíðinni. Qujaukitsoq segir að efnahagslíf Grænlendinga standi vel en hallarekstur ríkissjóðs eins og í fyrra komi ekki til greina.