Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Tónleikahaldarar ósáttir – „finnst þetta dálítið skítt“

15.01.2021 - 14:55
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Haukur Tryggvason, veitingamaður og tónleikahaldari á Græna hattinum á Akureyri, varð fyrir miklum vonbrigðum með þær breytingar sem gerðar voru á samkomutakmörkunum í vikunni. Hann hefur frestað öllum tónleikum fram í febrúar, hið minnsta.

Má taka við 50 manns en ekki selja veitingar

Samkvæmt nýjum reglum sem tóku gildi í vikunni eru sviðslistir, bíósýningar og menningarviðburðir nú leyfðir. 50 manns mega vera á æfingum og á sýningum. Sitjandi gestir í sal mega vera allt að 100 fullorðnir og 100 börn fædd 2005 og síðar. Gestir skulu sitja í skráðum sætum. Áfram skal viðhafa tveggja metra reglu og grímuskyldu. Þessar breytingar hafa lítil áhrif á rekstur Græna hattsins.

„Hálffúlt að hafa lokað“

„Ef ég titla mig sem sviðslistir má ég taka við 50 manns en þarf að hafa númerað og merkt nafni. Svo má ég ekki hafa hlé og ekki selja veitingar þannig að það er alveg glatað fyrir mig. Þannig að það er bara áfram lokað fram til 15. febrúar og staðan svo bara endurmetin,“ segir Haukur. Hann segist hafa rætt við fleiri tónleikahaldara sem sitja í súpunni.

Gerið þið ykkur einhverjar vonir um að þessar reglur fari að rýmka?

„Já, já, ég er búinn að bóka listamenn alveg fram á vorið. Svo er maður bara í því að afbóka og færa. Ég var nú eiginlega að vonast til að það yrði miðað við 50 manna samkomur fyrir þessa helgi þannig að ég var búinn að bóka á þessa helgi en ég er búinn að færa það allt. Okkur finnst þetta dálítið skítt því það eru engin smit hérna fyrir norðan og okkur finnst hálffúlt að hafa lokað.“

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Græni Hatturinn verður áfram lokaður