Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þrýst á Bandaríkin að taka húta af hryðjuverkalista

15.01.2021 - 06:42
epa08932296 Yemenis get their families' food rations provided by a local aid group, Mona Relief Yemen, amid a dire humanitarian crisis, in the western port city of Hodeidah, Yemen, 07 January 2021 (issued 12 January 2021). According to reports, the UN relief agencies have warned that the US administration’s plans to designate the Houthis in Yemen as a terrorist organization will exacerbate what the UN calls the world's worst humanitarian crisis, with 80 percent of the 29-million population lacking sufficient food. Yemen has been the scene of a six-year brutal war between the Saudi-backed Yemeni government and the Houthis, claiming the lives of over 233,000 people.  EPA-EFE/YAHYA ARHAB
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Mark Lowcock, yfirmaður mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum krefst þess að Bandaríkin dragi til baka ákvörðun sína um að setja húta í Jemen á lista yfir hryðjuverkahópa. Hann óttast að ákvörðunin geti valdið hungursneyð af stærðargráðu sem hafi ekki sést í áratugi, auk þess sem erfiðara verði að koma nauðsynjavörum til landsins.

Lowcock tjáði fundargestum í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna þetta í gær. Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lýsti því yfir á sunnudag að hútar færu á lista Bandaríkjanna yfir erlend hryðjuverkasamtök 19. janúar, síðasta dag Donalds Trumps í embætti forseta. Hjálparstofnanir og Repúblikanar á Bandaríkjaþingi greindu frá áhyggjum sínum vegna yfirlýsingarinnar og áhrifa hennar á mannúðarmál í Jemen, sem þegar eru í hryllileg.

Milljónir aðframkomnar af hungri

Lowcock sagði gögn sýna að yfir helmingur þeirra 30 milljóna sem búa í Jemen eigi eftir að líða hungur á þessu ári. Þegar séu 50 þúsund manns á grafarbakkanum sökum hungurs, og fimm milljónir til viðbótar séu við það að fylgja þeim þangað, hefur Al Jazeera fréttastofan eftir honum. 

Fjöldi fyrirtækja hefur dregið úr viðskiptum sínum við Jemen eftir yfirlýsingu Pompeo. Þar sem um 90 prósent matvæla í Jemen eru innflutt sagði Lowcock nauðsynlegt að Bandaríkin drægju yfirlýsingu sína til baka til að koma í veg fyrir umfangsmikla hungursneyð.

Rauði krossinn þrýstir einnig á Bandaríkjastjórn

Dominik Stillhart, verkefnastjóri Alþjóða Rauða krossins, lýsti einnig áhyggjum sínum af hörmulegum afleiðingum yfirlýsingar bandaríska utanríkisráðherrans. Hann sagði í gær að ákvörðunin gæti komið í veg fyrir flutning nauðsynlegra birgða til veikra og hungraðra almennra borgara.

Borgarastríðið í Jemen hefur staðið yfir frá árinu 2014, þegar hútar náðu völdum á stórum hluta landsins. Átökin versnuðu eftir að fjölþjóðleg hersveit, með stuðningi Sádi-Araba, Sameinuðu arabísku furstadæmanna og Bandaríkjanna meðal annarra, ákvað að styðja við stjórnarherinn til að brjóta húta á bak aftur. Sádar bjuggust við skjótum sigri, en stríðið hefur haldið áfram með hörmulegum afleiðingum. Tugþúsundir almennra borgara hafa fallið í átökunum og eru báðar fylkingar sakaðar um stríðsglæpi.