Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Það átti bara að kynna þetta betur“

Mynd: RÚV / RÚV
Það var hárrétt ákvörðun hjá heilbrigðisráðherra að fresta því að hækka aldursmörk í brjóstaskimun. Þetta segir Thor Aspelund, formaður skimunarráðs Landspítala og prófessor í líftölfræði. Ráðið lagði sjálft til að konur kæmu ekki í skimun fyrr en eftir fimmtíu ára afmælisdaginn. Ákvörðunin hefur verið gagnrýnd og undirskriftum safnað gegn henni. 

„Skimun á að vera eitthvað sem ríkir sátt um, alveg hiklaust, þetta á að vera eitthvað sem almenningur vill taka þátt í og styðja við, þess vegna finnst mér þessi ákvörðun hafa verið alveg hárrétt, það átti bara að kynna þetta betur og það ætti líka bara að bíða núna aðeins með þetta, segja bara við skoðum þetta eftir tvö ár,“ segir Thor í viðtali við Morgunvaktina á Rás 1. 

Eitt að fá boð frá yfirvöldum, annað að koma sjálf

Thor segir að í flestum nágrannalöndum okkar hefjist skipulögð skimun fyrst um fimmtugt. Skimunin geti auðvitað bjargað en hjá yngri konum sé líka hætta á falskri greiningu. „Þetta aldursbil, 40-49 ára, á því virkar greiningartæknin okkar bara ekki nógu vel, myndgreiningartækin og annað til að greina krabbameinin, næmnin er ekki nógu góð. Það er svolítill munur á orðalaginu, að vera boðaður í skimun af yfirvöldum og að fara sjálfur í skoðun þegar maður finnur til einkenna eða veit af ættarsögu eða til dæmis hefur farið og látið mæla í sér erfðaþætti og tilmælin sem við erum að tala um, er bara þessi skipulagða boðun,“ segir Thor.