Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sóttvarnir íþyngja síður hér en í flestum OECD-ríkjum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Innlendar sóttvarnir hafa verið minna íþyngjandi hér á landi en í flestum OECD-ríkjum. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri lokaskýrslu starfshóps fjármála- og efnahagsráðherra um sóttvarnir og efnahagsbata.

Fram kemur að mikill samdráttur hafi orðið í landsframleiðslu á Íslandi og atvinnuleysi mikið, sem helst megi kenna hruni í ferðaþjónustu, en að einkaneysla hafi ekki dregist markvert meira saman en á öðrum Norðurlöndum.

Neysla Íslendinga hafi aukist heima fyrir vegna fækkunar utanlandsferða og þannig stutt við efnahagsumsvifin í landinu. Seðlabanki og hið opinbera hafi sömuleiðis haft svigrúm til að örva innlenda eftirspurn eftir vörum og þjónustu.

Kostnaður vegna faraldursins skiptist í tvennt, annars vegar beinan efnahagslegan kostnað og hins vegar kostnað af heilsufarslegum afleiðingum COVID-19 auk áhrifa takmarkana á lýðheilsu fólks.

Í skýrslu starfshóps ráðherra segir að hafa þurfi fyrirsjáanleika og stöðugleika í huga við aðgerðir, það dragi úr óvissu og lágmarki neikvæð áhrif á efnahagslífið.

Sjúkdómnum fylgi þó óvssa og sveiflur sem torveldi slíkt skipulag, en mikilvægt sé þó að aðstoða fyrirtæki og einstaklinga við viðbrögð við sóttvörnum eins mjög og mögulegt sé.

Í greiningu Analytica fyrir starfshópinn er því spáð að verði ferðatakamarkanir áfram svipaðar út fyrsta ársfjórðung nýs árs megi ferðaþjónustan búast við 76% lægri tekjum á fyrsta ári farsóttarinnar en hefði hún ekki skollið á.

Heildaráhrif farsóttarinnar á efnahagslífið nemi um átta prósentum af landsframleiðslu en að bein áhrif mótvægisaðgerða ríkisins lækki það hlutfall um 3 prósent, niður í fimm af hundraði. Jafnramt álítur Analytica að fjarvinna fólks í faraldrinum hafi líklega mildað samdrátt frá því sem annars hefði orðið.
.