Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Skólarúta og jeppi fóru út af veginum í hálku

15.01.2021 - 09:31
Mynd: Björgunarsveit Hafnarfjarðar / Landsbjörg
Flughált er víða á landinu, þar á meðal á Biskupstungnabraut þar sem skólarúta og jeppi runnu út af veginum. Engin meiðsl urðu þó á fólki. Margir eru hins vegar í vandræðum með að komast leiðar sinnar.

„Það er kannski best að lýsa því að ég hef keyrt bíl í 43 ár og ég hef aldrei kynnst annarri eins hálku,“ sagði Hafsteinn Helgason í samtali við fréttastofu rétt fyrir klukkan níu. „Það er bara þannig að meira að segja bílar á negldum hjólbörðum komast ekki upp brekkkur. Þessar svokölluðu Skálholtsbrekkur, sem eru hér milli Skálholts og Biskupstungnabrautar, eru afskaplega erfiðar. Þær eru eiginlega ófærar í dag, bæði upp á við og niður á við. Það eru bílar út af hérna við gatnamótin, skólarúta sem fór reyndar ekki á hliðina og jeppi sem fór út af áðan. Það er fullt af bílum sem eru hérna stopp. Það verður bara að loka veginum þar til búið er að salta.“

Vegagerðin vinnur að því að hálkuverja veginn í annað sinn, en fulltrúi Vegagerðarinnar segir að það taki saltið tíma að virka. Ekki stendur til að loka veginum. 

Víða flughált

Samkvæmt upplýsingum á vef Vegagerðarinnar er vetrarfærð í flestum landshlutum og flughált á nokkrum stöðum á Vestfjörðum, Suðurlandi og Suðausturlandi. Einnig er flughált á Mosfellsheiði og Þingvallavegi. Lokað er yfir Öxi og Breiðdalsheiði vegna flughálku á svæðinu. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV