Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Segja veitingastaði geta gætt sóttvarna betur en búðir

Mynd: Alma Ómarsdóttir/RÚV / Alma Ómarsdóttir/RÚV
Samtök fyrirtækja í veitingarekstri skora á stjórnvöld að bregðast við erfiðri stöðu veitingageirans tafarlaust áður en fleiri veitingastaðir gefast upp. Þau hvetja til meiri gagnsæis í sóttvarnaaðgerðum og að jafnræðis sé gætt. 

Starfsemi veitingahúsa hefur verið skert síðan í ágúst og krár verið lokaðar síðan í september. Emil Helgi Lárusson og Hrefna Björk Sverrisdóttir ræddu  þessa stöðu í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Þau segja einkennilegt að 100 megi vera í verslunum en 20 í hverju hólfi á veitingastöðum

„Við hefðum viljað sjá gengið aðeins lengra og hækka þennan lágmarksfjölda upp í 50 manns,“ segir Hrefna. „Opnunartímann til 11 sem munar mjög miklu upp á að geta tví- eða þrísetið borðin og jafnfram leyfa kráareigendum að opna og hlíta sömu reglum og veitingahúsin gera.“

Í þessu sambandi nefnir Hrefna að það skjóti skökku við að hótelbarir fái að vera opnir á þeim forsendum að þeir séu skilgreindir hluti af andyri hótela. 

„Þannig að það er mjög ósanngjarnt og mikið af þessum stöðum eru hreinlega að lognast út af. Samkvæmt könnun sem við gerðum meðal félagsmanna í desember kom í ljós að tæplega 50% af félagsmönnum sjá sér ekki fært að vera í rekstri mikið lengur en út febrúar miðað við núverandi ástand.“

Emil segir að kjarasamningar hafi komið illa niður á veitingastöðum. Þá hafi áfengisgjald hækkað. „Og síðan kemur þetta ofan í það. Það er ekki til að bæta ástandið. En ég held að það sem angri okkur mest er að við skiljum ekki reglurnar nógu vel. Það er svo mikið ósamræmi í þeim. Verslanir mega taka inn 100, þarna kemur fólk inn og þuklar á öllum flíkum og pinklum. Það er ekkert hægt að spritta á milli. Veitingastaðir geta haldið sóttvörnum miklu betur.“

Þau segja að tekjufallsstyrkir gagnist veitingastöðum takmarkað, þeir sem þurfi á þeim að halda séu margir hættir rekstri. Samtök fyrirtækja í veitingarekstri  leggja nú til að veitingastaðir fái endurgreiðslu virðisaukaskatts.  „Það hvetur fólk til að selja meira, gefa upp tekjurnar og nýtist greininni mjög jafnt,“ segir Hrefna.