Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segir mikilvægt að læra af hamförunum á Seyðisfirði

Mynd með færslu
Umhverfisráðherra og föruneyti á Seyðisfirði í dag Mynd: RÚV - Hjalti Stefánsson
Umhverfisráðherra segir að nýta verði reynslu og þekkingu af hamförunum á Seyðisfirði til að koma koma í veg fyrir að slíkt gerist aftur. Í dag hófst vinna við gerð varnarmannvirkja ofan byggðarinnar á Seyðisfirði.

Eftir að hafa þurft frá að hverfa í gær hófu starfsmenn Múlaþings og verktakar vinnu á skriðusvæðinu í morgun við að reisa varnargarða og grafa skurði til að veita vatni úr fjallinu.

Tilgangurinn að verja byggðina til bráðabirgða

„Tilgangurinn er að verja reyna að verja byggðina og húsin fyrir frekari skriðuföllum til bráðabirgða. Væntanlega verður gert annað og meira í því síðar," segir Jón Egill Sveinsson, verkefnastjóri hjá Múlaþingi. Varnargarðarnir eiga að duga til að stöðva minni skriður og skurðirnir að safna saman vatni og veita því í rétta farvegi.

„Sláandi að sjá það sem hér hefur gengið á"

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, var á meðal þeirra sem fylgdust með þessu aðgerðum á Seyðisfirði. Hann ræddi í gær og dag við fulltrúa Fjarðabyggðar og Múlaþings um rannsóknir, vöktun og áætlaðar ofanflóðavarnir. „Þetta er sláandi að sjá það sem hér hefur gengið á. En kannski það sem kemur mest við mann er sú milid að það skuli enginn hafa farist í þessu," segir hann.

Greinilega vandað til verka við hreinsunarstarfið

Og af þessum atburðum sé nauðsynlegt að læra, og nýta þá reynslu og þekkingu til framtíðar svo koma megi í veg fyrir að svona lagað gerist aftur. „Það er líka mjög gott að sjá hversu vel hreinsunarstarfið gengur og hversu vel þetta er gert. Það er verið að hlúa að þeim hlutum sem eru mögulega ennþá heilir og greinilegt að það er vandað mikið til verka."

Mikilvægt að flýta rannsóknum eins og hægt er

Rannsóknir og vöktun næstu mánuði muni leiða í ljós hvaða leiðir verði færar til að verja byggðina á Seyðisfirði til frambúðar. „Og mjög mikilvægt að við tökum þann tíma sem við þurfum í það, en samt þá er biðin ergið, við vitum það og mikilvægt að flýta þessarri vinnu sína og hægt er," segir Guðmundur Ingi.