Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Ríkisstjórnin ræðir aðgerðir á landamærunum

Á ríkisstjórnarfundi í dag verður rætt um heimildir til sóttvarnaaðgerða á landamærunum. Búast má við að í framhaldinu verði gefin út ný reglugerð þar að lútandi.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra lagði fram frumvarp um endurskoðun á sóttvarnalögum í lok nóvember í fyrra og þar er skerpt á ýmsum þáttum varðandi sóttvarnir og heimildir stjórnvalda til að beita þeim. Frumvarpið er nú á borði velferðarnefndar.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur lagt til við heilbrigðisráðherra að allir farþegar sem koma til landsins þurfi að framvísa neikvæðri sýnatöku fyrir komuna. Það megi ekki vera eldra en 48 klukkustundir. Ráðuneytið hafi ekki talið lagastoð fyrir fyrri tillögum hans um að sýnataka yrði skylda og að þeir sem gætu ekki farið í sýnatöku yrðu látnir vera í sóttkví í farsóttarhúsi.

Hann hefur sagt slæmt að lagaleg óvissa ríki um sóttvarnaaðgerðir í miðjum heimsfaraldri.

Á upplýsingafundi Almannavarna og Embættis landlæknis í gær sagði Sigurgeir Sigmundsson, yfirlögregluþjónn flugstöðvardeildar Lögreglustjórans á Suðurnesjum, að það væri óviðunandi staða að ekki væri búið að laga löggjöfina. Sóttvarnalækni skorti skýrari heimildir.