Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Óttast að bóluefni virki verr á ný afbrigði

15.01.2021 - 16:11
epa08939137 Health worker collects swab sample of the 'Severi Correnti' high school's students amid the second wave of the Covid-19 Coronavirus pandemic, in Milan, Italy, 15 January 2021.  EPA-EFE/MARCO OTTICO
 Mynd: EPA-EFE - ANSA
Nýtt brasilískt afbrigði af veirunni sem veldur COVID-19 gerir nú víðreist í Suður-Ameríku. Margar þjóðir hafa gert ráðstafanir til að koma í veg fyrir að það nái fótfestu. Þetta nýja afbrigði hefur álíka marga stökkbreytingar og það suðurafríska sem hefur verið til umræðu en ekki eins margar og það breska sem hefur verið mest í umræðunni.

Afbrigðin þrjú eru talin meira smitandi en fyrri afbrigði og hafa gert mikinn usla á þeim landsvæðum sem þau eru kennd við. Þau hafa einnig dreifst víðar, og það veldur áhyggjum.

Til að útskýra þetta nánar er rétt að taka fram að þúsundir afbrigða eru til af þessari veiru. Og það er ekkert óeðlilegt við það, svona veirur stökkbreytast alltaf. Slíkar stökkbreytingar geta jafnvel orðið til þess að veikja veiruna. En sumar gera hana meira smitandi og jafnvel skaðlegri.

Þrjú afbrigði hafa verið sérstaklega undir smásjá vísindamanna. Öll afbrigðin eiga sameiginlegt að svokölluð broddprótín í veirunni hafa stökkbreyst. Það er sá hluti hennar sem ræðst á frumur líkamans. Stökkbreyting í þessum prótínum eykur möguleika veirunnar á að ráðast á frumurnar og þar með breiðast út.

Kjöraðstæður í veiku ónæmiskerfi

Mest hefur verið rætt um hið svokallaða breska afbrigði, nefnt svo af því að það greindist fyrst í Bretlandi og hefur breiðst hratt út þar. Fræðiheitið er H69/V70. Það hefur nú greinst í yfir 50 löndum, þar á meðal á Íslandi. Rannsóknir bæði í Bretlandi og víðar hafa sýnt að veiran er meira smitandi en fyrri afbrigði en ekkert bendir til að hún sé skaðlegri né heldur að bóluefni virki ekki á afbrigðið.

Vísindamenn hafa hins vegar tekið eftir því að stökkbreytingar á þessu afbrigði eru óvenju miklar miðað við venjulega kórónuveiru. Líklegasta skýringin á því er talin vera sú að veiran komst í sjúkling með veikt ónæmiskerfi, sem eru kjöraðstæður fyrir hana til að stökkbreytast. Þaðan hélt hún svo áfram að breiðast út.

Stökkbreyting í broddprótínum veldur áhyggjum

Suðurafríska afbrigðið er kallað 501.V2. Það greindist fyrst í október og er, rétt eins og breska afbrigðið, meira smitandi en eldri afbrigði. Sumir vísindamenn hafa sagt að mögulega virki bóluefni ekki eins vel á þetta afbrigði og önnur. Gerðar hafa verið grunnrannsóknir þar sem bóluefni Pfizer og BioNTech er prófað við einni stökkbreytingunni á þessu afbrigði og þar reyndist bóluefnið virka vel.

Áhyggjur hafa sprottið meðal sumra vísindamanna af því að stökkbreytingin í broddprótínunum á þessu afbrigði sé það mikil að hún geti haft áhrif á virkni bóluefnisins. Meiri breyting hefur orðið á prótíninu í þessu afbrigði en í breska afbrigðinu. Bóluefni bæði Pfizer og Moderna ráðast á þessi prótín til að gera veiruna óvirka en þau ráðast einnig á fleiri hluta veirunnar.  Vísindamenn eru ekki á einu máli um þetta og gera þarf frekari rannsóknir til að fá úr þessu skorið. Þetta afbrigði hefur greinst í yfir 20 löndum.

Nú er það brasilíka afbrigðið sem veldur usla og áhyggjum víða um heim. Hér að ofan má sjá úttekt Sky News á afbrigðinu. Það greindist fyrst í Brasilíu í júlí en í fyrsta sinn utan Brasilíu á þriðjudaginn var, nánar tiltekið í Tókýó í Japan. Samkvæmt rannsóknum hefur broddprótín þessa afbrigðis stökkbreyst tólf sinnum, sem þykir mjög mikið. Það eru því í grunninn sömu áhyggjur af þessu afbrigði og því suðurafríska, hraðara smit og mögulega minni virkni bóluefna gegn því. Stökkbreytingar þessara tveggja eru þó ekki algjörlega sambærilegar.

Ýmis lönd hafa gert ráðstafanir til að reyna að hindra að þessi tvö afbrigði komist til landsins. Bretar, sem eru í erfiðri glímu við afbrigðið sem fyrst greindist þar, hafa bannað ferðalög til og frá Suður-Afríku vegna þessa afbrigðis, og síðan bannað ferðir til og frá Suður-Ameríku, Panama, Grænhöfðaeyjum og Portúgal vegna brasilíska afbrigðisins. Portúgal verður fyrir banninu vegna tíðra ferðalaga milli þess og Brasilíu. Samgönguráðherra Breta sagði í dag að þessar ráðstafanir væru fyrst og fremst til að hefta útbreiðsluna. Vísindamenn stæðu í þeirri trú að bóluefni virkuðu á þetta afbrigði.

Tekið skal fram að ekkert bendir til þess að fólk verði veikara af þessum þremur afbrigðum en fyrri afbrigðum sem hafa greinst. Það má hins vegar búast við að glíman við þetta afbrigði verði áfram erfið þangað til búið er að bólusetja. Fyrir utan að veiran getur haldið áfram að stökkbreytast og ný afbrigði komið fram við það. Því getur bólusetning varla komið nógu snemma fyrir heimsbyggðina.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV