Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Múgurinn komst „hættulega“ nálægt Mike Pence

15.01.2021 - 17:53
E
 Mynd: EPA
Múgurinn, sem réðst inn í þinghúsið í Washington í síðustu viku, komst hættulega nálægt varaforsetanum Mike Pence. Varaforsetinn var aðeins nokkrum sekúndum frá því að standa augliti til auglitis við óeirðarseggina sem margir hverjir höfðu kallað eftir því að hann yrði hengdur fyrir svik sín við Donald Trump. 37 eru til rannsóknar hjá bandarísku alríkislögreglunni í tengslum við morðið á lögreglumanninum Brian Sicknick sem lést í átökunum.

Washington Post greinir frá því að Pence hafi ekki verið færður í öruggt skjól fyrr en 14 mínútum eftir að þinglögreglan tilkynnti að múgurinn hefði brotið sér leið inn í húsið. 

Blaðið hefur eftir heimildarmönnum sínum að sá tími hefði verið nægur fyrir hópinn til að komast að staðnum þar sem Pence var.  Varaforsetinn var að lokum fluttur í öruggt skjól ásamt eiginkonu sinni og dóttur. Hefði múgurinn verið aðeins nokkrum sekúndum fyrr á ferðinni hefði hann komið auga á Pence á flótta.

Blaðið segir þetta vekja spurningar um þá hættu sem æðstu embættismenn voru í þennan dag. Bent er á að varaforsetinn hélt áfram að stýra staðfestingu á úrslitum forsetakosninganna í öldungadeildinni í meira en klukkutíma eftir að yfirmaður þinglögreglunnar hafði lýst því yfir að mótmælin væru að verða stjórnlaus. Talsmaður Pence vildi ekki tjá sig um málið.

Talið er að sú ákvörðun Pence að hunsa beiðni Trumps um að ógilda úrslitin hafi hleypt illu blóði í óeirðarseggi.  Einhverjir þeirra kölluðu eftir því að hann yrði hengdur fyrir svik sín við forsetann og ljósmyndir hafa birst af gálga sem reistur var fyrir utan þinghúsið. Trump hefur verið ákærður til embættismissis þar sem hann er sakaður um að hafa með orðum sínum hvatt til innrásarinnar.

New York Times segir að 37 séu til rannsóknar vegna morðsins á lögreglumanninum Brian Sicknick sem lést í átökunum um þinghúsið. Hann var sleginn í höfuðið með slökkvitæki.  Fjórtán lögreglumenn til viðbótar særðust í innrásinni.

Löggæsluyfirvöld telja yfirvofandi hættu á frekari átökum í aðdraganda embættistöku Joe Bidens í næstu viku. Blaðið hefur eftir leyniþjónustunni að tilraunir hafi verið gerðar frá Rússlandi, Íran og Kína til að hella olíu á þann eld og auka þannig enn frekar á spennuna.