Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Læknar frá 4 sjúkrahúsum tóku þátt í handleggjaágræðslu

Mynd: Jón Björgvinsson / RÚV
Læknar frá fjórum sjúkrahúsum í Frakklandi tóku í umfangsmikilli aðgerð sem Guðmundur Felix Grétarsson gekkst undir á sjúkrahúsi í Lyon á miðvikudag. Fréttastofa AFP segir frá því að fjöldi lækna og hjúkrunarfræðinga hafi tekið þátt í aðgerðinni. Hún var gerð á Edouard-Herriot-sjúkrahúsinu og tók fimmtán klukkustundir að sögn talsmanns sjúkrahússins.

„Þetta er að okkar viti fyrsta aðgerð af þessari í heiminum þar sem í fyrri aðgerðum voru axlir ekki græddar á sjúkling,“ segir talsmaðurinn. Læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk frá Clinique du Parc í Lyon,  Norðvestursjúkrahúsinu í Villefranche-sur-Saône, einkasjúkrahúsinu Jean-Mermoz í Lyon og Lyon-Villeurbanne Medipôle tóku þátt í aðgerðinni.

Í fréttinni segir ennfremur að Guðmundur Felix njóti áfram læknismeðferðar á Edouard-Herriot-sjúkrahúsinu og Henry-Gabrielle-sjúkrahúsinu sem eru hluti af HCL.

Sylwia Grétarsson Nowakowska, eiginkona Guðmundar Felix, segir að læknarnir séu afar ánægðir með aðgerðina og hún hafi gengið að óskum. 

Guðmundur Felix missti handleggina þegar hann var við viðgerð á háspennulínu fyrir rúmum tuttugu árum. Guðmundur Felix greip fyrir slysni um línu sem straumur var á og féll niður átta metra. Fyrir rúmum fimm árum komst hann á biðlista í Frakklandi eftir nýjum handleggjum og öxlum. Hann og kona hans hafa nánast beðið við símann síðan.

„Á mánudagskvöldið fengum við símtal um að hugsanlega væri kominn líffæragjafi,“ segir Sylwía.

Daginn eftir lá samþykki fyrir og aðgerðin hófst á miðvikudagsmorgun. Sylwía segir að læknarnir séu afar ánægðir með aðgerðina. Hún hafi gengið að óskum. 

Guðmundur Felix er afar bólginn og á sterkum verkjalyfjum en Sylwia segir að það sé í samræmi við það sem læknar hafi búist við.

„Ég var að fá mynd frá læknunumaf Felix, þar sem hann sést allur og brosir sínu breiðasta. Þó að hann sé ekki upp á sitt besta líkamlega er hann mjög ánægður,“ segir Sylwía.

Guðmundi Felix er haldið í algjörri einangrun og því má Sylwia ekki hitta hann en hún talaði við hann í síma í morgun.
 
„Við köllum hann Felix hérna því Guðmundur er of erfitt nafn. Hann vildi beina orðum sínum til allrar íslensku þjóðarinnar sem hefur stutt hann svo lengi og lýsa yfir þakklæti sínu. Hann þakkar ykkur fyrir allan stuðninginn. Hann sagðist ekki hafa getað þetta án íslensku þjóðarinnar,“ segir Sylwía.

Til að byrja með má hann ekkert hreyfa sig og hefur þess vegna ekki getað skoðað nýju handleggina og fingurna.

„Ég vona að hann fái fljótt einhverja tilfinningu og að hann nái að tengjast handleggjunum,“ segir Sylwía.