Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fær ekki að setja upp samlokusjálfsala á Akureyri

15.01.2021 - 13:47
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Tomasz Piotr Kujawski, sem á og rekur pylsuvagninn í Hafnarstræti á Akureyri, er afar ósáttur við bæjaryfirvöld eftir að skipulagsráð hafnaði beiðni hans um að setja upp samlokusjálfsala í bænum. Formaður skipulagsráðs segir ekki hægt að fylla miðbæinn af sjálfsölum.

Tveggja fermetra sjálfsali með heitum samlokum

Það var í byrjun desember sem Tomasz sendi inn erindi til skipulagsráðs þar sem hann óskaði eftir að fá að setja upp lítinn sjálfsala sem átti að selja tilbúnar samlokur. Sjálfsalinn átti að vera tveir fermetrar og standa við hlið pylsuvagnsins sem fyrir er.

Vildi reyna að hjálpa rekstrinum

„Núna er COVID og með þessu vildi ég gefa fólki tækifæri til að kaupa sér mat án þess að koma nálægt öðrum. Bara snertilaus þjónusta. Svo er líka lítið að gera í pylsuvagninum núna svo ég vildi reyna að hjálpa rekstrinum. Akureyrarbær gefur mér ekki leyfi fyrir þessu og ég hreinlega veit ekki af hverju,“ segir Tomasz. 

„Er eiginlega bara mjög reiður“

„Þessi sjálfsali átti bara að selja heitar samlokur, ekki áfengi eða Coca Cola þannig að ég er að hugsa um börn líka. Ég skil ekki af hverju ég fæ ekki að setja þetta upp. Ég er eiginlega bara mjög reiður.“

„Viljum ekki fylla bæinn af sjálfsölum“

Skipulagsráð bæjarins tók beiðnina fyrir á fundi sínum á miðvikudag og þar var henni hafnað. Þórhallur Jónsson, bæjarfulltrúi og formaður skipulagsráðs, segir í samtali við fréttastofu að sjálfsalar eigi ekki heima í miðbænum. „Við viljum ekki fylla bæinn af sjálfsölum, við fengum beiðni um að sett yrði upp boxpúðatæki í bæinn um daginn og því var líka hafnað. Við viljum ekki hafa svona lagað í miðbænum,“ segir Þórhallur.