Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Ég held þetta sé léttir fyrir alla þjóðina“

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, fagnar því að heilbrigðisráðherra hafi fallist á tillögu hans um skimunarskyldu fyrir alla sem koma til landsins. Betra sé seint en aldrei.

 

Frá og með deginum í dag verður öllum sem koma til landsins skylt að fara í tvöfalda skimun nema þeir geti framvísað vottorði um að þeir hafi fengið bólusetningu, séu með mótefni gegn kórónuveirunni eða geti af gildum ástæðum ekki farið í skimun. Þórólfi er létt. „Ég held þetta sé bara léttir fyrir alla, íslensku þjóðina og alla sem eru að berjast gegn þessari veiru, að gera þetta svona, þetta var mín fyrsta tillaga að það yrðu allir skyldaðir í skimun þannig að ég er bara mjög ánægður með að það hafi verið ákveðið.“

Alvarleg staða á landamærunum 

Þórólfur lagði það til við heilbrigðisráðherra fyrir nokkrum vikum að hætt yrði að leyfa fólki að velja á milli þess að fara í 14 daga sóttkví eða sýnatöku við komuna til landsins. Of mikið hafði þá verið um að fólk segðist ætla í sóttkví en virti hana svo ekki. Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisáðherra, taldi óljóst hvort það stæðist lög að skylda alla í skimun en nú er komið annað hljóð í strokkinn. „Það sem breyttist í raun og veru er að við þurfum að horfast í augu við það hversu alvarleg staðan er, í ljósi þess telur mitt ráðuneyti að þetta sé undirbyggt af lögum.“

Gott að ekkert gerðist

Í gær var ekki útlit fyrir að tillaga Þórólfs um skimunarskyldu næði fram að ganga, hann lagði því til að fólk yrði látið framvísa vottorði um neikvætt Covid-próf á landamærunum og veldi auk þess á milli skimunar eða sóttkvíar. Af þessu verður ekki, enda upphafleg tillaga Þórólfs nú komin í reglugerð. „Betra er seint en aldrei, ég lagði þetta til fyrir nokkrum vikum síðan og það hefur ekkert gerst í millitíðinni alvarlegt sem við sjáum í smitrakningu eða með raðgreiningu veirunnar, ég held það sé bara gott að þetta komi til framkvæmda núna, frekar en einhvern tímann seinna.“