Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Auka framleiðslu um 30 megavött án þess að bora meira

15.01.2021 - 19:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Reykjanesvirkjun verður stækkuð úr hundrað í hundrað og þrjátíu megavött á næstu tveimur árum án þess að borað verði frekar eftir orku. Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ segir að stækkuninni fylgi störf.

Skrifað var undir verktakasamninga við Ístak, Hamar og Rafal sem sjá um stækkunina í dag. Áætlaður kostnaður er um 12 milljarðar króna og á verkinu að vera lokið í ársbyrjun 2023. Stækkunin er byggð á nýrri tækni. Þessi nýja aðferð gerir það að verkum að ekki þarf að bora eftir frekari orku heldur er orkan sem fyrir er nýtt betur. 

„Já, þetta er ný tækni að ákveðnu leyti. Við þróuðum hana í samstarfi við verkfræðistofuna Verkís, við höfum verið með tilraunaverkefni hér og nú erum við að útfæra þetta á fullum skala,“ segir Tómas Már Sigurðsson forstjóri HS Orku

Hann segir að þarna verði ekki hægt að stækka um meira en 30 megavött en mögulega verði hægt að stækka í Svartsengi. Viðbótarorkan verður nýtt á svæðinu.

„Við erum að vinna að mörgum verkefnum í Auðlindagarðinum, hér eru tíu fyrirtæki sem eru beintengd okkur í einu formi eða öðru og við reiknum með að nýta hana þar, en einnig kaupum við orku af öðrum á markaði og munum þá nota þetta í staðinn.“

Áætlað er að á byggingartímanum verði til um 200 störf. Atvinnuástandið í Reykjanesbæ hefur verið þungt og erfitt og bæjarstjóri Reykjanesbæjar fagnar þessum framkvæmdum.

„Það þýða fleiri störf, vonandi til frambúðar, en til skemmri tíma í kringum framkvæmdirnar þá eigum við von á því að það muni skapast störf fyrir iðnaðarmenn og aðra hérna á svæðinu. Það skiptir gríðarlegu máli eins og ástandið er,“ segir Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri.
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV