Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Alþjóðaflugfélög vinna að heilsupassa fyrir farþega

Kristján Sigurjónsson, ritstjóri Túrista.is. - Mynd:  / 
Alþjóðasamtök flugfélaga vinna nú að undirbúningi sérstaks alþjóðaheilsupassa fyrir fólk sem ferðast á milli landa, eða eftir atvikum innanlands, til að samræma aðgerðir vegna Covid-19. Reglur eru mjög misjafnar milli landa, það er að segja hvort fólk þurfi að framvísa vottorði, þurfi ekki að sýna fram á neitt eða megi ekki koma inn í landið. Ritstjóri Túrista.is segir reglur breytast mjög hratt víða um heim og það sé oft bagalegt fyrir flugfélögin og vellina, en ekki síst farþegana sjálfa.

Úr hundrað ferðum á dag niður í eina

Þegar WOW air flaug sem hæst í kring um 2018 fóru um 100 flugvélar frá Keflavíkurflugvelli á hverjum degi. Nú er það þannig að fólk sem á erindi til Íslands kemst varla þangað þar sem það eru svo fáar ferðir. Í dag fór ein vél, til Kaupmannahafnar, snemma í morgun. Og í Danmörku gilda strangar sóttvarnarreglur á alþjóðaflugvöllum, rétt eins og í Bretlandi og Bandaríkjunum, og víðar um heim. Kristján Sigurjónsson, ritstjóri Túrista.is, sagði á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun og það væri bagalegt fyrir alla hversu ólíkar reglurnar eru. 

„Þær breytast með mjög stuttum fyrirvara. Bandaríkin ætla til dæmis að taka upp kerfi núna í janúar að allir þurfi neikvæð vottorð til að komast inn í landi. Það er sama saga í Danmörku og Bretlandi og víðar” segir Kristján. „Í raun eru Bandaríkin og Kanada lokuð lönd fyrir almennum ferðamönnum, það eru bara íbúar og fólk sem á brýnt erindi sem komast inn fyrir.” 

Vilja samræmdar aðgerðir milli landa

Verið er að kalla eftir samræmdum aðgerðum milli landa og samkvæmt Kristjáni eru alþjóðasamtök flugvalla nú að þróa sérstakan heilsupassa fyrir farþega til að sýna fram á neikvætt próf eða mótefni eða hvað sem þarf til að ferðast á milli landa í heimsfaraldri. 

„Nú er það ekki flugferðin sjálf sem er að fæla fólk frá, heldur staðan á áfangastað,” segir hann. „Þetta er svo ólíkt milli landa og breytist svo hratt, en það standa vonir til að aðgerðir samræmist fljótlega.” 

Eini alþjóðavöllurinn sem flýgur ekki innanlands

Varðandi Keflavíkurflugvöll segir Kristján að þar hafi mesti samdrátturinn verið í faraldrinum miðað við hin Norðurlöndin. Leifsstöð er nú í níunda sæti varðandi farþegafjölda á flugvöllum Norðurlandanna, en flugvöllurinn í Tromsö í Noregi er í því tíunda. En Keflavíkurvöllur er líka eini alþjóðaflugvöllurinn á Norðurlöndunum sem sinnir ekki innanlandsflugi.