
Abbas boðar til kosninga í Palestínu
AFP-fréttastofan greinir frá því að kosið verði til löggjafarþings 22. maí og að forsetakosningar séu fyrirhugaðar 31. júlí. Fatah-flokkur forsetans og Hamas-liðar sem ráða lögum og lofum á Gaza hafa löngum lýst áhuga á að gengið verði til kosninga í Palestínu.
Ágreiningur þeirra á milli er talinn helsti ásteitingarsteinn þess að af kosningum hafi orðið en í september síðastliðnum náðust sögulegar sættir um kosningar árið 2021. Hamas-liðar fögnuðu yfirlýsingu Abbas forseta í dag en ekkert hefur verið látið uppi um hvort hann sæktist eftir endurkjöri.
„Hér er stigið mikilvægt skref,“ segir Arif Jaffal, greinandi í málefnum Palestínu og bætir við að þessarar ákvörðunar hafi lengi verið beðið. Abbas hefur verið forseti síðan í janúar 2005, en hann var kjörinn forseti með 62% atkvæða eftir andlát Yassers Arafat.