Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Abbas boðar til kosninga í Palestínu

15.01.2021 - 22:22
epa08173489 Palestinian President Mahmoud Abbas delivers his speech in the West Bank city of Ramallah, 28 January 2020. US President Donald J. Trump's Middle East peace plan was rejected by Palestinian leaders, having withdrawn from engagement with the White House after Trump recognized Jerusalem as the capital of Israel. The proposal was announced while Netanyahu and his political rival, Benny Gantz, both visit Washington, DC.  EPA-EFE/ALAA BADARNEH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Mahmud Abbas forseti Palestínu tilkynnti í dag hvenær gengið yrði til kosninga í landinu í fyrsta sinn í fimmtán ár. Hann segir að gengið verði að kjörborðinu á öllum landsvæðum Palestínu, þar á meðal í Austur-Jerúsalem.

AFP-fréttastofan greinir frá því að kosið verði til löggjafarþings 22. maí og að forsetakosningar séu fyrirhugaðar 31. júlí. Fatah-flokkur forsetans og Hamas-liðar sem ráða lögum og lofum á Gaza hafa löngum lýst áhuga á að gengið verði til kosninga í Palestínu.

Ágreiningur þeirra á milli er talinn helsti ásteitingarsteinn þess að af kosningum hafi orðið en í september síðastliðnum náðust sögulegar sættir um kosningar árið 2021. Hamas-liðar fögnuðu yfirlýsingu Abbas forseta í dag en ekkert hefur verið látið uppi um hvort hann sæktist eftir endurkjöri.

„Hér er stigið mikilvægt skref,“ segir Arif Jaffal, greinandi í málefnum Palestínu og bætir við að þessarar ákvörðunar hafi lengi verið beðið. Abbas hefur verið forseti síðan í janúar 2005, en hann var kjörinn forseti með 62% atkvæða eftir andlát Yassers Arafat.