Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Vilja koma Sputnik V bóluefninu til ESB ríkja

14.01.2021 - 16:31
epa08863906 A Russian medic takes out Russia's vaccine against COVID-19 disease from the refrigerator at a policlinic in Moscow, Russia, 05 December 2020. On 05 December, Moscow began a program for mass vaccination against COVID-19 disease, caused by SARS-CoV-2 coronavirus, using the Sputnik V vaccine.  EPA-EFE/MAXIM SHIPENKOV
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Rússar áforma í næsta mánuði að sækja um leyfi fyrir Sputnik V bóluefninu gegn kórónuveirunni hjá Lyfjastofnun Evrópu. Notkun þess hefur þegar verið heimiluð í nokkrum löndum. 

Kirill Dmitriev, yf­ir­maður rúss­neska fjár­fest­ingar­sjóðsins RDIF, sem fjár­fest hefur í bólu­efn­inu, segir í viðtali við Reuters fréttastofuna í dag að innan skamms sé von á ítarlegum niðurstöðum á virkni bóluefnisins. Notkun þess hefur að hans sögn verið heimiluð í sjö löndum, þar á meðal Argentínu, Hvíta-Rússlandi og Serbíu. 

Rússar hófu að bólusetja fjörutíu þúsund sjálfboðaliða með Sputnik V í byrjun síðasta mánaðar. Þar á meðal var heilbrigðisstarfsfólk og kennarar. Stefnt er að því að almenn bólusetning hefjist í næstu viku, samkvæmt fyrirskipun Vladimírs Pútíns forseta. Fullyrt hefur verið að lyfið virki í 95 prósentum tilvika.

COVID-19 hefur dregið 64 þúsund Rússa til dauða frá því að farsóttin blossaði upp, samkvæmt opinberum tölum. Þrjár komma fimm milljónir hafa sýkst. 

Lyfjastofnun Evrópu hefur þegar heimilað notkun bóluefna við kórónuveirunni frá fyrirtækjunum Pfizer og BioNTech annars vegar og Moderna hins vegar. AstraZeneca sótti fyrr í vikunni um leyfi fyrir dreifingu á bóluefni sem þróað var í samvinnu við vísindamenn við Oxfordháskóla. Niðurstaða liggur hugsanlega fyrir í lok þessa mánaðar.