„Hann virðist ekki ganga heill til skógar. Hann virðist vera með einhvers konar mikilmennskubrjálæði sem brýst þannig út að hann virðist ímynda sér að hann hafi stærra hlutverk innan samtakanna en er í raun og veru,“ segir Gunnar Hrafn um Chaudhry. „Þetta eru einhvers konar fantasíuelement sem eru í gangi og fyrir vikið virðist hann ekki hafa passað sig mjög mikið þegar hann bjó til þessa sögu.“
Eins og Forrest Gump
Gunnar Hrafn tók sjálfur eftir ýmsu tortryggilegu í málflutningi hans og nefnir sem dæmi hve hratt og auðveldlega hann komst inn í innsta hring Íslamska ríkisins. Þegar hann mætti til Sýrlands var hann kominn í trúarlögregluna, Hisba, en til þess að vera gagnlegur félagi í henni þarf maður að kunna tungumálið vel.
„Ég skildi aldrei hvernig hann átti að hafa getað fúnkerað sem slíkur útsendari ef hann talaði ekki arabísku.“ Svo skömmu síðar var hann orðinn innsti koppur í búri í skipulagningu hryðjuverka á Vesturlöndum. „Á stuttum tíma var hann allt í einu búinn að upplifa allt. Hann var eins og Forrest Gump; hann dúkkaði upp alls staðar þar sem eitthvað var að gerast í ISIS.“
Blaðamenn New York Times gerðu sér raunar grein fyrir þessum mótsögnum. „Hann er gómaður nokkrum sinnum meira að segja í podcastinu sjálfu fyrir að fara ekki rétt með.“ Engu að síður sannfærði Callimachi sig um að megnið héldi vatni. „Eins og hún orðar það sjálf, grindin er heil þó það séu göt í grindinni. En grindin virðist ekki vera til staðar.“ Samkvæmt öllum opinberum gögnum getur ekki verið að hann hafi verið þarna.
Hafði alvarleg áhrif á málefni flóttamanna
Upp um lygina komst vegna pólitísks þrýstings á kanadíska þinginu. „Hann gekk of langt í eigin fantasíu. Hann fór að ræða við fleiri fjölmiðla og varð margsaga um hversu marga hann hefði drepið og hvers vegna. Yfirvöld fóru að spyrja alvarlegra spurninga á þinginu og þetta hafði alvarlegar afleiðingar.“
Tiltekin mál voru fryst út af hlaðvarpinu. Meðal annars för hóps flóttamanna, sem í voru eiginkonur vígamanna Íslamska ríkisins og börn þeirra undir fimm ára aldri, frá Sýrlandi til Kanada. „Það var meðal annars fimm ára gömul kanadísk munaðarlaus stúlka í kúrdískum flóttamannabúðum sem veit ekki með sína framtíð út af þessu máli.“
Eftir að upp komst að Chaudhry hefði aldrei ferðast til Sýrlands skipaði New York Times sinn eigin rannsóknarhóp til þess að fara yfir þættina. Hópurinn komst að því að vinnubrögðin hefðu ekki verið nægilega vönduð. Í kjölfarið hefur verðlaunum verið skilað, afsökunarbeiðni hefur verið prentuð og henni útvarpað og blaðakonan Rakmini Callimachi færð til í starfi.
Ekki eru allir sannfærðir um að hún ein eigi að bera ábyrgð. „Ritstjórar hennar voru mjög ólmir í að þetta væri satt,“ segir Gunnar Hrafn. „Þeir sem voru að tala við hana hjá leyniþjónustunni virtust margir frekar æstir fyrir þessu jafnvel líka. Ég vil ekki áfellast hana algjörlega eina, þótt hún hafi vissulega fallið í þessa sömu gryfju, að vera með frétt sem var ómótstæðileg og hún birti greinilega með ekki nógu gagnrýnni hugsun. Þá held ég að hún hafi verið með of mikið af já-fólki í kringum sig, fólki sem vildi að þetta væri satt.“
Kristján Guðjónsson ræddi við Gunnar Hrafn Jónsson í Lestinni á Rás 1 um það hvernig hlaðvarp New York Times, Caliphate, féll saman.