Utanlandsferðum Íslendinga fækkaði um nærri 80% í fyrra

14.01.2021 - 17:00
Mynd: EPA / EPA
Um 130 þúsund Íslendingar fóru út fyrir landsteinana á síðasta ári. Miðað við árið áður fækkaði þeim um 79%. Fækkun íslenskra ferðamanna var hins vegar yfir 90 af hundraði þegar litið er á ferðir Íslendinga frá því í apríl og til loka ársins. Í aprílmánuði fækkaði þeim sem fóru utan um Keflavíkurflugvöll um 99,5%.

338 til útlanda í apríl

Árið byrjaði vel og það óraði engan fyrir því hvað var í vændum. Í janúar fóru yfir 38 þúsund Íslendingar til útlanda um flugstöð Leifs Eiríkssonar. Það var svipað og síðustu ár. Reyndar fóru rúmlega 8 prósent færri Íslendingar til útlanda 2019 en árið 2018, en þetta byrjaði sem sagt vel í fyrra. Í febrúar fækkaði í Íslendingahópnum en fjöldinn féll niður í tæplega 16 þúsund í mars miðað við yfir 43 þúsund árið áður. Kórónuveiran var byrjuð að hafa sín áhrif og möguleikar á að komast úr landi takmarkaðir vegna hennar. Í apríl og maí má segja að nánast enginn hafi farið til útlanda. 338 í apríl og rúmlega 800 í maí. Landið byrjar aðeins að rísa í júní. Þá eru íslenskir farþegar rúmlega 5 þúsund talsins og fjöldinn fer yfir 13 þúsund í júlí. Það slær í bakseglin. Í ágúst fara um 5 þúsund Íslendingar til útlanda. Næstu tvo mánuði fer þeim fækkandi. Tæplega 4 þúsund í október og í nóvember tvö þúsund. Um 3500 þúsund fóru til útlanda í desember. Niðurstaða ársins er að um 130 þúsund Íslendingar fóru til útlanda um Flugstöð Leifs Eiríkssonar í fyrra miðað við rúmlega 611 þúsund árið áður. Í prósentum er fallið tæplega 79%.

Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Þórunn Reynisdóttir

Hvernig horfir staðan við þeim sem starfa við það að selja Íslendingum ferðir til útlanda? Þórunn Reynisdóttir, forstjóri ferðaskrifstofunnar Úrvals Útsýnar, segir að staðan sé breytileg bæði hér innanlands og í útlöndum frá viku til viku.

„Við höfum þurft að aðlaga okkur að því hverju sinni. Engu að síður höfum við verið með áætlun á þessa hefðbundnu staði, Kanarí og Tenerife og höfum þurft að hliðra til í ljósi aðstæðna. Við erum samt að reyna að horfa fram í tímann en þetta hangir allt saman. Hvernig ástandið er á áfangastöðunum og hjá okkur,“ segir Þórunn.

Stórt limbó

Á vefsíðu ferðaskrifstofunnar er að finna ýmis tilboð um ferðir. Spurningin er hvort síðasta ár hafi einkennst af að selja ferðir og endurgreiða þær síðan. Þórunn bendir á að eðli máls samkvæmt sé verið að selja ferðir langt fram í tímann.

„Þegar covid skall á í febrúar og mars vorum við búin að selja ferðir alveg fram í september og október, jafnvel fram að jólum og áramótum. Þegar þetta skellur svona harkalega á lendum við í því eins og aðrir að endurgreiða okkar viðskiptavinum sem var mjög þungbært í byrjun. Við vorum búin að fyrirframgreiða okkar þjónustu og vorum ekki að fá endurgreitt vegna þess að staðirnir voru hreinlega lokaðir. Við erum að komast yfir þennan kúf. Svo kom smá glufa í júní þar sem við fórum að fljúga aftur. Það var sala þá en þetta er búið að vera svolítið stórt limbó undanfarna mánuði.“

Erfitt að rýna í kristalkúluna

Það ríkir mikil óvissa um hvert framhaldið verður í ferðaþjónustunni. Hvernig metur Þórunn útlitið?

„Við bindum vonir að það verði smá sala fyrir páskana og jafnvel eitthvað í mars, að það verði hægur stígandi í þessu. Við verðum með örfáar ferðir í febrúar og sjáum hvernig þær verða. Það er erfitt að segja til um þetta,“ segir Þórunn. Það sé erfitt að rýna í kristalkúluna. „En við erum að finna núna síðustu daga að fólk er að þora að bóka fram í tímann og spyr meira.“

Nánar er rætt við Þórunni í Speglinum.