Tuttugu ára dómur Park staðfestur í hæstarétti

14.01.2021 - 06:29
epa06161274 South Korean Former President Park Geun-hye (C) is escorted to a courtroom in Seoul, South Korea, 25 August 2017, to stand trial on alleged bribery, abuse of power and leaks of government secrets. Park, who was impeached by the Constitutional
Park Geun-hye kemur í réttarsal í fylgd fangavarðar. Mynd: EPA-EFE - Reuters Pool
Hæstiréttur í Suður-Kóreu staðfesti í morgun tuttugu ára fangelsisdóm fyrrverandi forsetans Park Geun-hye. Park var ákærð fyrir þátt sinn í umfangsmiklu spillingarmáli árið 2017.

Ákæran var birt eftir einhver fjölmennustu mótmæli í sögu Suður-Kóreu. Hún var í fyrstu dæmd í þrjátíu ára fangelsi fyrir mútuþægni og misbeitingu valds. Nokkrum áfrýjunum, endurupptöku og fleiri áfrýjunum síðar var dómurinn mildaður í tuttugu ár. Þetta var í annað sinn sem málið fór fyrir hæstarétt, og er lokaniðurstaðan í máli forsetans fyrrverandi.

Sjálf hefur Park ekki látið sjá sig í dómssal. Hún hlaut einnig tveggja ára dóm fyrir brot á kosningalögum, sem bætist ofan á tuttugu ára dóminn fyrir spillingu. Hún þarf því að dvelja í fangelsi í 22 ár, og verður komin á níræðisaldur að afplánun lokinni.

Málið snerist um tengsl stórfyrirtækja og stjórnmálamanna í Suður-Kóreu. Park var sökuð um að hafa þegið mútur frá viðskiptaveldum á borð við Samsung, gegn því að stjórnvöld færu mjúkum höndum um fyrirtækin.
Allir fjórir núlifandi, fyrrverandi forsetar Suður-Kóreu hafa verið dæmdir fyrir glæpi.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV