Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

TikTok bætir stillingar til að auka friðhelgi barna

14.01.2021 - 16:23
epa08685858 A generic illustration shows the logo of Chinese internet media app TikTok on a phone, in Beijing, China, 21 September 2020.  Chinese-owned mobile app WeChat was set to stop operation in the U.S. on midnight 20 September 2020.  EPA-EFE/ROMAN PILIPEY
 Mynd: EPA - EPA-EFE
Samfélagsmiðillinn TikTok kynnti í gær aðgerðir til að auka friðhelgi barna á samfélagsmiðlinum. Nú eru allir reikningar hjá 15 ára og yngri sjálfkrafa aðgangsstýrðir (e. private). Ekki verður áfram opið fyrir hvern sem er til að setja athugasemdir við færslur hjá þessum aldurshóp heldur er stillingaratriði hvort aðeins samþykktir vinir geti gert athugasemdir eða enginn.

Þá er meðal annars ekki lengur hægt að hlaða niður myndskeiðum hjá 16 ára og yngri en 16 til 17 ára geta stjórnað því sjálf.

Blaðamaður hjá breska ríkisútvarpinu BBC varpaði ljósi í nóvember á hve greiðan aðgang notendur sem stunda kynferðislega áreitni hafa að börnum á samfélagsmiðlinum og hvernig TikTok brást í að bregðast við þegar hún tilkynnti kynferðislega áreitni á forritinu en blaðamaðurinn þóttist vera 14 ára stúlka í rannsóknarskyni.

„Þessar nýjustu umbætur hjá TikTok eru mikilvægt skref fram á við til að auka friðhelgi og öryggi barna á forritinu. Það að reikningurinn sé sjálfkrafa aðgangsstýrður og útiloki þannig að ókunnugir geti gert athugasemdir við myndskeið barna og komi í veg fyrir niðurhal er mikilvægt skref til að koma í veg fyrir kynferðislega áreitni og ofbeldi á börnum á netinu,“ segir Iain Drenna formaður samtakanna WeProtect Global Alliance sem berjast gegn kynferðisofbeldi gegn börnum á netinu í tilkynningu TikTok.